Ísafjörður: Halldór Smára og Sæunn Þorsteins með tónleika í Hömrum

Miðvikudaginn 27. mars munu Halldór Smárason og Sæunn Þorsteinsdóttir halda tónleika í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar, undir yfirskriftinni Hvað nú?

Þau Halldór og Sæunn hafa unnið náið saman undanfarin ár, þar sem Sæunn hefur frumflutt fjölda verka eftir Halldór. Á þessum tónleikum skarast hlutverkin þar sem um er að ræða flæðandi spunatónleika hvar staður og stund hafa áhrif á sköpun og túlkun. Að öllum líkindum munu þó inn á milli heyrast verk og lög sem eru áheyrendum að góðu kunn.

Halldór Smárason píanóleikari og tónskáld er Ísfirðingur og er Vestfirðingum af góðu kunnur. Undanfarin ár hafa verk hans verið flutt af mörgum þekktum listamönnum og hópum og árið 2020 kom út hans fyrsta hljómplata, STARA, undir merkjum Sono Luminus. Halldór hefur í þrígang hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari starfar í Bandaríkjunum og hefur komið fram sem einleikari með mörgum af helstu sinfóníuhljómsveitum heims. Hún er ötull talsmaður nýrrar tónlistar og hefur unnið náið með fjölmörgum tónskáldum. Undanfarin ár hefur Sæunn komið að þátttöku og skipulagningu á tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði og hefur djúpstæða tengingu við staðinn. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og hlaut nýlega Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins.
Ekki missa af einstakri tónlistaróvissuferð.

Tónleikarnir hefjast kl. 20, miðaverð er 3.000 kr. og fer miðasala fram við innganginn.
Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarfélagi Ísafjarðar.

DEILA