Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra var á Ísafirði í gær og hélt í Edinborgarhúsinu opinn fund þar sem kynnt voru drög að aðgerðaráætlun fyrir ferðaþjónustuna. Vinnan hófst í fyrra og voru skipaðir starfshópar sem hafa verið að störfum undir stjórn stýrihóps sem samræmir tillögur einstakra starfshópa. Starfið er á lokastigi og er miðað við að tillaga til þingsályktunar um ferðamálastefnu til 2030 og aðgerðaáætlun verði lögð fram á Alþingi 15. mars 2024 eða innan tveggja vikna.
Stefnt er að því að ferðaþjónusta bæti efnahag landsmanna, hafi jákvæð áhrif á nærsamfélagið, verði heilsársatvinnugrein um land allt, upplifun gesta verið góð og áhrif á umhverfi verði með minnkandi kolefnisspori og jafnvægi milli hagnýtingar og verndar náttúrunnar.
Í heildina verði um arðsama og samkeppnishæfa ferðaþjónustu að ræða í sátt við land og þjóð.

Fundurinn var ágætlega sóttur. Meðal fundarmanna mátti sjá Braga Þór Thoroddse, sveitarstjóra í Súðavík og Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra í Ísafjarðarbær.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.