Ísafjarðarbær lagði inn umsókn um styrk úr Fiskeldissjóði fyrir sex verkefnum. Auk þess er sveitarfélagið aðili að 50 m.kr. sameiginlegri umsókn vegna byggingar verkmenntahúss við Menntaskólann á Ísafirði.
Hæsta styrkbeiðnin 101,5 m.kr. er vegna aðveituæðar á Suðurtanga.
Leggja á nýja vatnslögn frá munna jarðganganna að Suðurtanga. Annars vegar verður lögnin grafin í frá gangamunna að Sigurðarbúð í botni Skutulsfjarðar. Þaðan verður lögnin lögð í sjó yfir Pollinn og kæmi upp syðst á Suðurtanga. Tvö fiskeldisfyrirtæki hafa fengið úthlutað lóðum við Sundabakka á Ísafirði, fyrirtækin Hábrún og Háafell og segir í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að fyrirséð sé að vatnsveitan verði komin að þolmörkum þegar byrjað verður að slátra fiski á Ísafirði.
Sótt er um 93,3 m.kr. styrk vegna fráveitu á Þingeyri.
Ætlunin er að leggja nýja fráveitulögn í Hafnarstrætið og setja upp hreinsivirki neðst á Oddann. Við þær aðgerðir munu öll iðnaðarhús við Hafnarstræti vera tengd við hreinsivirki og um 7-8 eldri útrásir vera aflagðar.
Þá er sótt um 53,1 m.kr. styrk til byggingar á svonefndu skógarhúsi við leikskólann Tanga. Húsið verður tengt Jónsgarði og er hugmyndin að þar verði starfrækt leikskóladeild innan leikskólans Tanga þar sem
10-12 börn yrðu í senn og tækju þátt í virku útinámi tengt Jónsgarði og skógræktinni í hlíðum Eyrarfjalls.
Stækkun á leikskólanum Sólborg er fyrirhuguð og er sótt um 15,3 m.kr. styrk vegna þess.
Endurbætur á félagsheimilinu Þingeyri eru fyrirhugaðar og er sótt um 17,6 m.kr. styrk til viðgerða á gólfi.
Loks er sótt um 16,5 m.kr. styrk til breytinga á Sundhallarlofti á Ísafirði sem gæti nýst fyrir dægradvöl grunnskólabarna.