Hákon Hermannsson: tók sæti á Alþingi á mánudaginn

Hákon Hermannsson í ræðustól.

Á mánudaginn tók Hákon Hermannsson, Ísafirði sæti á Alþingi í forföllum Bergþórs Ólasonar, alþm Miðflokksins. Hákon skipaði 6. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi við síðustu Alþingiskosningar.

Hákon mun sitja þessa vikuna og beið ekki boðanna og kvaddi sér hljóðs í gær á þingfundi undir liðnum störf þingsins. Ræddi hann um orkuskort á Vestfjörðum sem kæmi fram í því að Orkubú Vestfjarða áætlaði að brenna 3,4 milljónir lítra af olíu til húshitunar. Ástæðan væri að virkjunarframkvæmdir kæmust ekki af stað vegna andstöðu, ætti það við um Hvalárvirkjun og Vatnsdalsvirkjun væri líka stopp þar sem orkumálaráðherra hefði ekki svarað erindi Orkubúsins um afléttingu friðunarskilmála og meira að segja Botnsvirkjun í Dýrafirði væri gert að fara í umhverfismat að ákvörðun Skipulagsstofnunar. Vestfirðingar mættu hvorki framleiða né flytja raforku.

Hákon sagði í samtali við Bæjarins besta að veran á Alþingi væri skemmtileg og gaman væri að kynnast staðnum. Hann neitaði því ekki að hafa verið smá smeykur við að fara í ræðupúltið í fyrsta skiptið, eiginlega hefði það verið ótrúlega stressandi en þrátt fyrir það gekki jómfrúarræðan vel.

DEILA