Gufudalssveit: stefnt að útboði í haust

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrui Vegagerðarinnar segir að stefnt sé að því að bjóða út síðasta áfanga Gufudalssveitar í haust. Er það um byggingu tveggja brúa að ræða. Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins sem nýlega var haldið er verkið áætlað kosta 3.500 m.kr.

Í lok nóvember samdi Vegagerðin við Borgarverk vegna verksins Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Hallsteinsnes – Skálanes, fyllingar. Verkið snýst um nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 3,6 km kafla. Innifalið í verkinu er bygging um 119 m langrar bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð sem verktakar munu nota meðan á framkvæmdum stendur. Borgarverk sá einnig um veglagningu í Teigsskógi.

Í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar kemur fram að framkvæmdir hófust í lok janúar og er verið að vinna að vegagerð frá Vestfjarðavegi við Skálanes og niður að sjó við Melanes. Í framhaldi verður farið í sjávarfyllingar í Gufufirði og svo byggingu bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. Verklok þessa áfanga eru áætluð í lok september 2025. Framkvæmdin er fyrsti áfangi í þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Óvíst um Dynjandisheiði

Ekki fást skýr svör um útboð á lokaáfanga Dynjandisheiðar. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að ekki sé enn búið að taka ákvörðun um hvenær Dynjandisheiðin verður boðin út. Verkið er talið kosta 2.800 m.kr.

Vegagerðin fékk í janúar framkvæmdaleyfi hjá Ísafjarðarbæ fyrir 3. áfanga  uppbyggingar Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði frá Þverá við Rjúpnabeygju að Búðavík í Arnarfirði. Vegarkaflinn er um 7 km langur og allur í Ísafjarðarbæ.

Suðurverk vinnur nú að 2. áfanga sem er 12,6 km kafli. Framkvæmdin nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæstu hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Framkvæmdir við annan áfanga hófust í október 2022. Tveir kaflar í öðrum áfanga hafa þegar verið opnaðir fyrir umferð. Í október 2023 var vegur frá Norðdalsá að Vatnahvilft opnaður almennri umferð en þá var búið að leggja klæðingu og setja upp víravegrið. Í desember var opnað fyrir umferð um veginn undir Botnshesti. 

Stefnt er að því að verkinu við annan áfanga Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði verði lokið um miðjan júlí 2024.

Frá vinnu verktaka efst á Dynjandisheiði í desember sl.

DEILA