Frístundasvæði verði í Dagverðardal

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að auglýsar verði breytingar á aðalskipulagi sem heimili breytta landnotun í Dagverðardal á reit I9 þannig að heimilað verði að reisa frístundahús í stað íbúðarhúsa. Jafnframt verði auglýst tillaga að nýju deilskipulagi fyrir sama svæði með allt að 45 frístundahúsum auk þjónustubygginga.

Ísafjarðarbær og Fjallaból ehf. undirrituðu þann 30.08.2022 samkomulag um lóðaúthlutun í Dagverðardal í Skutulsfirði á reit sem kallast Í9 í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og er reitnum úthlutað í einu lagi. Í samkomulaginu er kveðið á um að allt að 45 frístundahús verði byggð á reitnum og eru þau bæði hugsuð til sölu og útleigu til ferðamanna. Verkinu verður áfangaskipt og skv. framkvæmdaáætlun verða 15 hús reist í fyrsta áfanga og vonir standa til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári.

Markmið breytingarinnar er að auka framboð á gistimöguleikum á svæðinu segir í greinargerð með tillögunni að breytingu á aðalskipulaginu.

DEILA