Framtíð rammaáætlunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flutti ávarp við upphaf málsstofu um framtíð rammaáætlunar.

Stór og fjölbreyttur hópur tók þátt í málstofu um framtíð rammaáætlunar sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið boðaði til í Lestrarsal Þjóðmenningarhússins sl. þriðjudag og þá fylgdist fjölmennur hópur með málstofunni í gegnum streymi.

Málþingið markar upphaf vinnu starfshóps, sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði til að endurskoða verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun).

Starfshópinn skipa þau Hilmar Gunnlaugsson, hrl, sem er formaður hópsins, Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi ráðherra umhverfis- og auðlindamála, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður. Þau Hilmar, Björt og Kolbeinn skipuðu í fyrra starfshóp um málefni vindorku, sem skilað hefur ráðherra tillögum sínum og mun vinna þess hóps nýtast við endurskoðun rammaáætlunar.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarinnar er kveðið á um endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, til að tryggja megi ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi. 

Í ávarpi sínu við upphaf málstofunnar nefndi ráðherra þær áskoranir sem Íslendingar standi nú frammi fyrir vegna grænna orkuskipta og þann góða grunn sem orkuskipti fyrri kynslóða búi þjóðinni.

DEILA