Félagsþjónusta og móttaka flóttamanna: samningur milli Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps

Súðavík og Ísafjarðarbær hafa gert samkomulag um samstarf í félagsþjónustu.

Gerður hefur verið samningur milli Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar um sérfræðiráðgjöf, vinnslu mála og stjórnun í almennri félagsþjónustu og móttöku flóttamanna. Samningurinn byggir á samstarfi síðustu ára en er nú formlega staðfestur, eftir gildistöku Velferðarþjónustusamnings Vestfjarða.

Ísafjarðarbær tekur að sér framkvæmd verkefna fyrir Súðavíkurhrepp, þ.e. sérfræðiráðgjöf, vinnslu mála og stjórnun í almennri félagsþjónustu og móttöku flóttamanna. Ábyrgð á ákvörðunum mun liggja hjá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftir því sem við á samkæmt viðeigandi lögum. Ísafjarðarbær ræður starfsfólk nema í félags- og tómstundastarfi aldraða en þar ræður Súðavíkurhreppur starfsfólk og greiðir kostnað við það. Súðavíkurhreppur greiðir mánaðarlega fyrir veitta þjónustu en kostnaður skiptist í samræmi við íbúafjölda hvors sveitarfélags. Samningurinn þarf staðfestingu ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykkja samninginn.

DEILA