Byggðastofnun: fasteignamat viðmiðunarhúss lægst á Vestfjörðum

Patreksfjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Byggðastofnun hefur birt útreikninga á fasteignamati viðmiðunarhúss í þéttbýsli um land allt. Það er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem hefur unnið gögnin og útreikningana fyrir Byggðastofnun.

Matssvæðin eru alls 103 á landinu í 49 sveitarfélögum, þar af 27 á höfuðborgarsvæðinu og 76 utan þess.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 m2.

Staðsetningar matssvæðanna má sjá hér á kortinu.

Staðsetning fasteignar hefur mikið að segja um verð hennar og þar með fasteignamat. Fasteignamat
viðmiðunareignarinnar í þessari greiningu endurspeglar því best verð hennar á matssvæðum þar sem er virkur fasteignamarkaður.

Meðaltal heildar fasteignamats viðmiðunareignar á öllum 103 matssvæðunum er 63,2 m.kr. (tafla 1). Meðaltal matssvæðanna 27 á höfuðborgarsvæðinu er 111,3 m.kr., á Suðurnesjum 61,2 m.kr. (6 svæði), á Vesturlandi 46,3 m.kr. (11 svæði), á Vestfjörðum 37,0 m.kr. (12 svæði), á Norðurlandi vestra 40,3 m.kr. (5 svæði), á Norðurlandi eystra 46,0 m.kr. (16 svæði), á Austurlandi 38,1 m.kr. (12 svæði) og á Suðurlandi 56,4 m.kr. (14 svæði).

Samkvæmt þessari töflu er fasteignamat viðmiðunarhússins lægst á Vestfjörðum, en þar er meðaltal fasteignamatsins á sex matssvæðum í fjórðungnum 37 m.kr. Hæst er matið á höfuðborgarsvæðinu 111,3 m.kr. Það má því ætla að 74 m.kr. hærra verð fáist fyrir viðmiðunarhúsið á höfuðborgarsvæðinu en á Vestfjörðum. Fasteignamatið á Vestfjörðum er 59% af landsmeðaltalinu 63,2 m.kr. en aðeins 33% af fasteignamatinu á höfuðborgarsvæðinu.

Mest hækkun á Patreksfirði

Á síðustu 10 árum, frá 2014 til 2024, hefur fasteignamatið hækkað um 87% að meðaltali á landinu. Mest hefur hækkunin verið 173% og er það á Patreksfirði. Bolungavík er í þriðja sæti yfir mesta hækkun á þessu tímabili með 126% á eftir Úlfarsárdal með 129%. Ísafjörður nýrri byggð hefur hækkað um 100% á tímabilinu. Minnst hefur hækkunin verið í Grundarfirði 12% og næst minnst 25% á Hólmavík.

DEILA