Botnsvirkjun í Dýrafirði: halda sínu striki

Gunnar Þórisson, stjórnarformaður Botnsorku ehf segir að úrskurður Skipulagsstofnunar um að virkjunaráformin í landi Botns í Dýrafirði þurfi að fara í umhverfismat breyti ekki áformum um að ráðast í virkjunina en muni seinka framkvæmdum um a.m.k. eitt ár og kosta umtalsvert fé.

Fyrirtækið Botnsorka ehf hyggst ráðast í gerð rennslisvirkjunar í Botnsá í Dýrafirði með uppsett afl allt að 5000 kW eða 5 MW. Fyrirhugað er að virkja rennsli Botnsár úr um það bil 440 m hæð yfir sjávarmáli og verður vatnið leitt í stöðvarhús með niðurgrafinni 3,5 km langrar trefjapípu. Mannvirki og pípustæði verða sunnan Botnsár í landi Dranga.

Náttúrustofa Vestfjarða vann ítarlega skýrslu um áhrif framkvæmdanna á fugla, gróður og ferksvatn. Skipulagsstofnun sendi gögnin til umsagnir og bárust umsagnir frá 10 stofnunum. Fimm þeirra töldu ekki þörf á frekari rannsóknum, þrjár svöruðu ekki því hvort áformunum væri lýst með fullnægjandi hætti og aðeins tvær stofnanir töldu þörf á að framkvæmdin færi í umhverfismat.

Að fengnum umsögnunum ákvað Skipulagsstofnun 26. febrúar sl. að framkvæmdin kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

Kæra má ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 28. mars 2024.

enginn heimaaðili vildi umhverfismat

Af tíu stofnunum sem veittu umsögn voru þrjár á Vestfjörðum. Það voru Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafjarðarbær og Orkubú Vestfjarða og voru allar sammála um að framkvæmdinni væri nægjanlega lýst með framlögðum gögnum og þyrfti því ekki í umhverfismat.

Vegagerðin og Hafrannsannsóknarstofnun voru sama sinnis.

Veðurstofan og Orkustofnun tóku ekki afstöðu til þess hvort umhverfismat væri nauðsynlegt og Náttúrufræðistofnun segir í sinni umsögn að fram hafi komið fram góðar upplýsingar um umhverfisáhrif Botnsvirkjunar og því óvíst að umhverfismat myndi bæta miklu við varðandi t.d. mat á áhrif á lífríki. Hins vegar vantaði betra mat á áhrif á óbyggð víðerni og mögulega jarðminjar, einkum steingervinga. Þá ætti að skoða betur sammögnunaráhrif við aðra virkjunarkosti.

Það voru því aðeins Fiskistofa og Umhverfisstofnun sem svöruðu því skýrt að þörf væri á umhverfismati.

Óbyggð víðerni

Umhverfisstofnun vísar til hugtaksins óbyggð víðerni og segir í sinni umsögn: „Fyrirhugað virkjunarsvæði er staðsett innan Glámuhálendisins. Glámuhálendið er skilgreint sem óbyggt víðerni og Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, þar sem fjallað er um verndarmarkmið fyrir jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni, segir að til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags skal stefnt að því að standa vörð um óbyggð víðerni landsins.“ Þá bendir stofnunin á að fleiri virkjanir eru innan sama víðernissvæðis s.s Mjólkárvirkjun. „Mikilvægt er að samlegðaráhrif, fyrirhugaðra og núverandi virkjanna á sama óbyggða víðernissvæði, Glámuhálendinu séu skoðuð ítarlega, en ekki er gerð grein fyrir þeim í umhverfismatsskýrslunni.“

Ennfremur bendir Umhverfisstofnun á að fossarnir á framkvæmdasvæðinu njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og að Dýrafjörður og leirurnar í botni fjarðarins samtals 11.9 km2 svæði hafi verið tilnefnd á B hluta náttúruminjaskrár.

hugsanlega laxveiði

Fiskistofa gerir ágreining við landeigendur en í skýrslunni, sem þeir leggja fram, segir að ekki séu veiðihagsmunir í Botnsá. Í umsögn Fiskistofu, sem Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri undirritar segir hins vegar að það kunni að vera vannýttir möguleikar þar sem fundist hafi laxaseiði á vatnasvæðinu auk bleikju. Til þess að kanna þá þurfi mat á umhverfisáhrifum að fara fram. Þá er bent á í umsögninni að framkvæmdir í veiðivatni eða á því allt að 100 metra frá bakka séu háðar leyfi frá Fiskistofu.

Skipulagsstofnun: skerða óbyggð víðerni

Að mati Skipulagsstofnunar munu fyrirhugaðar framkvæmdir hafa í för með sér skerðingu á óbyggðu víðerni sem nemur framkvæmdasvæði virkjunarinnar og tekur þar með undir sjónarmið Umhverfisstofnunar og segir í úrskurði sínum að samkvæmt náttúruverndarlögum skuli standa vörð um óbyggð víðerni. „Um Glámuhálendið liggja þjóðleiðir sem nýttar hafa verið sem gönguleiðir. Ljóst er að mannvirki virkjunarinnar, s.s. stöðvarhús, vegur, aðrennslispípur, inntakslón og aðveituskurðir muni breyta
ásýnd þessa lítt raskaða svæðis.“ Þá telur Skipulagsstofnun að umfang framkvæmdarinnar og viðkvæma staðsetningu kalla á nánari greiningu og mat með tilliti til breytinga á ásýnd og landslagi. Vísað er sérstaklega til fossa. Þá sé framkvæmdasvæðið jafnframt innan hverfisverndarsvæðis F43 Drangar í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar.

DEILA