Bolungavík: skipulagshugmyndir Nostalglia á Bjarnabúðarreit

Fyrirtækið Nostalglía ehf á Suðureyri hefur skilað inn hugmyndum um skipulag og byggingaráform á áður úthlutuðum lóðum á Bjarnabúðarreit í Bolungavík. Gert er ráð fyrir að byggð verði átta hús með fimmtán 70 fermetra íbúðum og einu þvottahúsi. Auk þess er gert ráð fyrir móttökuhúsi og bílastæðum.

Elías Guðmundsson eigandi Nostalgíu ehf segir að þessar byggingar séu hannaðar sem íbúðarhúsnæði en fyrirhugað er að koma þeim í ferðaþjónustu tengt sjóstangveiði. Nostalgía hefur verið þróunaraðili að þessu verkefni en mun ekki koma að byggingu húsanna. Fyrirtækið Fisk Club ehf sem er í eigu Nostalgíu gerir út báta fyrir sjóstangveiði á Flateyri og Suðureyri stefnir á að bæta við sig einum áfangastað í viðbót. Hönnun og samþykktarferli á svona verkefni mun taka nokkra mánuði í viðbót en björtustu vorir eru að hægt verði að hefja jarðvegsvinnu á svæðinu í haust. Ef allt gengur upp í þessu ferli þá mun það taka 2-3 ár að koma fyrstu gestum í hús.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að þetta séu spennandi hugmyndir og lýsi bjartsýni og uppbyggingarhug sem sé einkennandi fyrir Bolungavík um þessar mundir. Mikil uppbygging hafi átt sér stað með tilkomu fiskeldisins og íbúafjölgun fylgi í kjölfarið. Mikil þörf sé á nýju íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu.

Umhverfisnefnd Bolungavíkurkaupstaðar tók vel í þær hugmyndir er fram komu í kynningarskjali og þau byggingaráform sem fyrirhuguð eru og hvetur lóðahafa til að skila inn endanlegum aðaluppdráttum ásamt formlegri byggingarleyfisumsókn.

Afstöðu mynd sem Batteríið arkitektar hafa teiknað.

DEILA