Andlát: Úlfar Ágústsson

Úlfar Ágútsson. Mynd: Ágúst Atlason.

Látinn er Úlfar Ágústsson Ísafirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði síðastliðinn föstudag.

Úlfar Snæfjörð Ágústsson fæddist á Hlíðarenda á Ísafirði 3. júlí 1940.

Foreldrar Úlfars voru Guðmundína Bjarnadóttir f. 16. maí 1911, d. 6. desember 1988 og Guðmundur Guðni Guðmundsson f. 22. maí 1912, d. 3. september 2008. Úlfar var ættleiddur af Ágústi Guðmundi Jörundssyni f. 6. nóvember 1906, d. 19. maí 1964. Systur Úlfars voru Sigríður Ágústsdóttir f. 19. desember 1934, d. 26. desember 2016 og Anna Jóna Ágústsdóttir f. 22. apríl 1943, d. 8. júlí 2019. Samfeðra átti Úlfar einn bróður Þórarinn Bjarka Guðmundsson f. 18. ágúst 1942.

Eiginkona Úlfars var Jósefína Guðrún Gísladóttir f. 24. janúar 1940 d. 22. janúar 2018. Þau gengu í hjónaband 13. febrúar 1960.

Foreldrar Jósefínu voru Gísli Elís Einarsson f. 22. júlí 1911, d. 26. september 1967 og Margrét Þórarinsdóttir f. 25. júní 1916, d. 29. apríl 1988. Systkini hennar voru Jóna Gréta Kinsley f 19. maí 1944, d. 2. janúar 2024 og Þórarinn Þorbergur Gíslason f. 9. maí 1947, d. 3. október 2010.

Börn Ínu og Úlfars eru 1) Gautur Ágúst, f. 2. nóvember 1961, d. 10. desember 1978, 2) Gísli Elís f. 4. mars 1969, eiginkona Ingibjörg Sólveig Guðmundsdóttir f. 24. maí 1971, börn þeirra eru Ína Guðrún f. 17. júlí 2000, Jóhanna Ósk f. 17. júlí 2000, Gautur Óli f. 15. janúar 2004 og Anna Margrét f. 13. september 2012, 3) Úlfur Þór f. 3. október 1974, eiginkona Anna Sigríður Ólafsdóttir f. 19. apríl 1975, börn þeirra eru Fróði Örn f. 5. maí 2007 og Hugi Hrafn f. 8. janúar 2014, 4) Axel Guðni f. 16. mars 1978, eiginkona Thelma Hinriksdóttir f. 25. október 1976, börn þeirra eru Ingibjörg f. 23. september 2001, Úlfar Snær f. 14. september 2009 og Agnar Hörður f. 28. júní 2016.

Úlfar Ágústsson var borinn og barnfæddur Ísfirðingur. Eftir að gagnfræðaskólagöngu lauk fór Úlfar til sjós og stundaði hann sjóinn fram til tvítugs en þá hóf hann störf sem verslunarmaður og var það hans aðalstarf ævina á enda. Verslunarstörfin hóf hann í verslun Jóns Bárðarsonar á Ísafirði og fann hann strax að þarna væri komið eitthvað sem ætti vel við hann. Þar starfaði hann í þrjú ár en hélt svo til Englands að læra ensku en eftir heimkomu bauðst honum starf í versluninni Neista þar sem hann gat sér góðan orðstír. Árið 1968 kaupir Úlfar svo í félagi við fleiri menn verslun Jóns Bárðarsonar sem stofnuðu í kjölfarið Hamraborg og þar má segja að framtíðin hafi verið ráðin. Þeir opnuðu þrjár verslanir í framhaldinu og voru fyrirferðarmestir í rekstrinum Úlfar og Heiðar Sigurðsson. Rekstrarskilyrði voru þó erfið á þessum árum og á endanum skiptu þeir upp rekstrinum og kom Hamraborg á Ísafirði í Úlfars hlut. Hann átti og rak verslunina að stóru leyti fram til ársins 2003 er synir hans Gísli og Úlfur keyptu reksturinn. Gísli, Úlfur og Axel byrjuðu allir að vinna í Hamraborg á unga aldri og má segja að þeir hafi verið aldir þar upp. Ína sem lengi vann á talsímanum fór í reksturinn með Úlfari árið 1977 og er óhætt að segja að þau hjónin hafi kennt ófáu ísfirsku ungmenninu að vinna. Þó synirnir hafi keypt meirihluta rekstursins og tekið við keflinu af föður sínum var Úlfar þó áfram meðeigandi og stjórnarformaður og vann hann í versluninni allt undir 2020 er heilsan leyfði ekki meir. Hamraborg stendur enn styrkum fótum í meðförum sonanna og er hún ein langlífasta verslun á Íslandi.

Þó Hamraborgin ein og sér geti talist ágætt ævistarf var hún alls ekki það eina sem Úlfar kom að á starfsævi sinni. Hann átti og rak Hótel Hamrabæ á níunda áratugnum en þar var hann mögulega aðeins á undan framtíðinni því ekki reyndist fótur fyrir rekstrinum. Einnig var hann umboðsmaður bæði Arnarflugs og Íslandsflugs á Ísafirði og setti hann á stofn ferðaskrifstofu sem seldi utanlandsferðir. Þó hann hafi verið orðinn nokkuð stálpaður þegar hann fór í sína fyrstu utanlandsför urðu ferðalög um allan heim engu að síður stór og gefandi hluti af lífi hans alla hans fullorðinstíð.

Úlfar var um 25 ára skeið fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði auk þess sem hann var líka um tíma umboðsmaður þess á staðnum. Í fréttaritaratíð hans flutti hann ekki einvörðungu fréttir af Vestfjörðum heldur einnig utan úr heimi þar sem hann meðal annars skrifaði um krabbaveiðar við strendur Alaska og útgerð þeim tengda í Seattle. Auk þess að skrifa fyrir Morgunblaðið ritstýrði Úlfar líka og gaf út blaðið Vesturland um hríð. Þótt skólagangan hafi ekki verið löng þá var Úlfar einstaklega vel máli farinn og góður penni. Hann var líka sérlega vel tengdur og lét fátt sér óviðkomandi, því voru blaðamannsstörfin honum sem í blóð borin.

Samfélags- og menningarmál voru Úlfari alla tíð hugleikin og fékk heimabærinn Ísafjörður að njóta krafta hans á mögrum sviðum. Hann var um tíma formaður Tónlistarfélags Ísafjaðar, hann var félagi í Lions svo áratugum skipti og um tíma umdæmisstjóri hreyfingarinnar á Íslandi. Hann var einnig í frímúrarastúkunni Njálu þar sem hann var sæmdur heiðursmerki fyrir framlag sitt, hann var í JC hreyfingunni, lék með Litla leikklúbbnum á yngri árum og svo mætti áfram telja. Hann hélt glæsilegar bæjarhátíðir líkt og Ísafjarðarhátíðina og Siglingadaga og var þar hvergi slegið af í framkvæmd metnaðarfullra hugmynda hans. Stórhugur Úlfars birtist líka í hugmynd hans um kláfferju upp á Eyrarfjall ofan Ísafjarðar, hugmynd sem enn lifir og verður vonandi að veruleika einn góðan veðurdag. Úlfar var pólitískur og var lengi virkur meðlimur í Sjálfstæðisflokknum. Hann sagði reyndar sjálfur í viðtali við Hlyn Þór Magnússon sem birtist í Bæjarins Besta árið 2015 um félagsmálabrölt sitt að hann hafi sennilega verið í flestum félögum nema kvenfélögunum – slíkur var áhuginn.

Úlfar og Ína kona hans voru aðsópsmikið tvíeyki sem lét til sín taka á Ísafirði og verður þeirra lengi minnst fyrir framlag sitt á hinum ýmsu sviðum.

DEILA