Alþingi: vilja skýrslu um skeldýrarækt

Halla Signý Kristjánsdóttir (B) alþm og átta aðrir þingmenn Framsóknarflokksins hafalagt fram á Alþingi beiðni um skýrslu frá matvælaráðherra um skeldýrarækt.

Fara þeir fram á að matvælaráðherra flytji Alþingi skýrslu um skeldýrarækt. Í skýrslunni komi fram:
     a.      umfang skeldýraræktar frá árinu 2011,
     b.      áhrif laga um skeldýrarækt, nr. 90/2011, á greinina,
     c.      munur á regluverki, gjaldskrám og leyfum eftir stærð skeldýraræktar,
     d.      samanburður á starfsumhverfi og samkeppnishæfni við önnur Evrópulönd,
     e.      kröfur sem gerðar eru um sýnatöku og með hvaða hætti stjórnvöld geti einfaldað það ferli,
     f.      framtíðarsýn ráðherra að því er varðar skeldýrarækt.

Í greinargerð sem fylgir með skýrslubeiðninni segir að í skeldýrarækt felist ræktun skeldýra með skipulegri umhirðu og vöktun á afmörkuðu svæði þar sem engin fóðrun á sér stað. Hluti af ræktun er einnig skipuleg söfnun og veiði á skeldýrum til áframhaldandi ræktunar. Sú skeldýrarækt sem helst hefur verið stunduð á Íslandi er línurækt.

Þá segir að ræktun skelfisks hafi átt erfitt uppdráttar hérlendis sökum mikils eftirlitskostnaðar, „en nefna má að í Danmörku er fastur kostnaður vegna eftirlits tengdur umfangi framleiðslu. Skeldýrarækt er mjög umhverfisvæn og til hennar þarf hvorki áburð né fóður heldur einungis sjó. Aðstæður hér við land eru fullkomnar til skeldýraræktar, sem er ein sjálfbærasta matvælaframleiðsla sem völ er á. Mikilvægt er að auka framleiðslu á matvælum sem hægt er að rækta á sjálfbæran hátt. Þótt gríðarleg tækifæri felist í aukinni skeldýrarækt er ekkert fjallað um framtíðarmöguleika hennar í nýlegri skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Þess vegna er brýnt að safna saman fjölbreyttum upplýsingum um greinina á einn stað.“

Í nýútkominni skýrslu, sem Fjórðungssamband Vestfirðinga stendur að, leiðin að byggðafestu, er vikið að kræklingarækt og þar segir að „á fyrsta áratug aldarinnar gætti víða mikils áhuga á að stunda kræklingarækt hér á landi og reyndu margir fyrir sér. Í upphafi annars áratugs aldarinnar samþykkti Alþingi lög sem drápu alla kræklingarækt í landinu.“

Haft er eftir Oddnýju Önnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli að árið 2011 hefðu verið sett lög um skeldýrarækt sem þáverandi formaður Samtaka atvinnulífsins hefði sagt að ætti frekar að kalla „lög um bann við skeldýrarækt“. Leyfisveitinga- og eftirlitskerfið í kringum greinina hefði kæft greinina í fæðingu.

DEILA