Alþingi: Vilja ógilda þjóðlendukröfu fjármálaráðherra

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson alþm og fjórir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga þar sem lagt er til að breyta þjóðlendulögum þannig að lögin taki ekki til landsvæða utan strandlengju meginlandsins. Meðflutningsmenn eru Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Birgir Þórarinsson og Óli Björn Kárason.

Í greinargerð segir að breytingin hafi í för með sér að öll yfirstandandi mál sem taka til landsvæða utan meginlandsins falla niður.

Nýlega setti Þórdís Kolbrún Gylfadóttir fjármálaráðherra fram fyrir Óbyggðanefnd kröfur ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar.

Í meginatriðum er beitt útilokunaraðferð, þ.e. lýst kröfum sem taka til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga utan meginlandsins en innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru, að undanskildum tilteknum eyjum eða hlutum þeirra, sbr. eftirfarandi yfirlit. Þá eru gerðar þjóðlendukröfur til afmarkaðra hluta tveggja eyja.

Á Vestfjörðum gerir ríkið kröfu til þess að allar eyjar og sker verði skilgreind sem þjóðlenda nema Æðey, Vigur og 26 eyjar á Breiðafirði.

 Samkvæmt frumvarpinu er það tilgangur þess að fella niður kröfur fjármálaráðherra, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Bæði Teitur Björn og Þórdís Kolbrún eru þingmenn Norðvesturkjördæmis.

DEILA