Áforma uppbyggingu fjarskiptasenda á Vestfjörðum

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

Nova, Síminn, Vodafone og Neyðarlínan fyrir hönd Öryggisfjarskipta ehf vinna saman að uppbyggingu fjarskiptasenda á Vestfjörðum. Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir að gert sé ráð fyrir uppbyggingu fjarskiptastaða á liðlega 20 stöðum til að uppfylla kvaðir um farsímaútbreiðslu á stofnvegum. Í nýlega endurnýjuðum tíðnileyfum kemur fram að uppbyggingunni eigi að vera lokið fyrir lok árs 2026.

Verkefnið fer af stað í tengslum við tíðniúthlutanir til fjarskiptafélaganna. Víða er lítið sem ekkert farsímasamband á þjóðvegum á Vestfjörðum svo sem í Ísafjarðardjúpi og í Barðastrandarsýslu.

Jón Svanberg segir að endanlegt staðarval einstakra senda liggi ekki fyrir, en búið sé að skilgreina þau svæði þar sem farið verður í úrbætur á fjarskiptaþjónustunni.

Kostnaður við verkefnið hefur verið áætlaður, og munu fjarskiptafélögin greiða þann kostnað, aðild Neyðarlínu að verkefninu er bundin við að fyrir liggi stefnumörkun stjórnvalda um neyðar og öryggisfjarskiptaþjónustu  og að sögn Jóns Svanbergs liggur niðurstaða úr því samtali ekki fyrir.

Neyðarlínan tekur þátt í undirbúningi þessa verkefnis og þá ekki hvað síst varðandi hvort og með hvaða hætti mætti nýta þá innviði sem byggðir verða upp til að auka TETRA þjónustu á umræddum svæðum.

Áðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Fjórðungssambandinu varðist frekari fregna á þessu stigi en sagði að Fjórðungssamband Vestfirðinga væri á lokastigi með gerð skýrslu um stöðu fjarnets, fastlínunets og útvarps.

Uppfært kl 12:35. Vodafone var bætt við þau fyrirtæki sem standa að uppbyggingunni, en nafn þess féll niður í upphaflegri frétt.

DEILA