Vindorkuver: auknar tekjur til sveitarfélaga

Teikning af fyrirhuguðu vindorkuveri í Garpsdal.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur kynnt tvö væntanleg þingmál í samráðsgátt stjórnvalda varðandi vindorkuver. Tilgangurinn er að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku en um leið að lágmarka umhverfisáhrif.

Fram kemur að stefnt skuli að því að sú verðmætasköpun sem hagnýting vindorku hefur í för með sér skili sér til samfélagsins alls með sanngjarnri og eðlilegri opinberri gjaldtöku sem tryggi því beina og sýnilega hlutdeild í afkomu starfseminnar.

„Vegna áhrifa virkjunar vindorku á nærumhverfið skal tryggja að nærsamfélagið njóti sérstaks ávinnings af starfseminni, umfram hefðbundnari virkjunarkosti.“

Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar þessu í umsögn sinni og leggur áherslu á að fasteignaskattar séu greiddir af öllum fasteignum.

Ekki liggi þó fyrir mótaðar tillögur um hvernig skuli skipta mögulegum tekjum sem tengjast vindorkuverum. Samband íslenskra sveitarfélaga telur það forsendu fyrir því að uppbygging vindorkuvera verði farsæl að þau sveitarfélög sem verða fyrir áhrifum af viðkomandi virkjun fái að njóta ágóðans af þeim tekjum sem verða til af viðkomandi virkjun. Sambandið telur jafnframt að líta verði til að orkumannvirki skuli bera fasteignaskatt.

Þá segir orðrétt í umsögninni: „Ef markmið stjórnvalda er að vindorkuver verði ein af undirstöðum raforkuframleiðslu á Íslandi er farsælast að sveitarfélög sem verða fyrir áhrifum af slíkri starfsemi njóti verulegs ábata af þeim verðmætum sem sköpuð eru í vindorkuverum.“

Samorka vekur athygli á því í sinni umsögn að raforkuöryggi sé í verulegri hættu og að á næstu árum verði atvinnuuppbygging mun minni en ætlað er vegna skorts á raforku.

Vindorka sé þeim kostum búin að hægt er að þróa og byggja vindorkuver mun hraðar en þekkist í nýtingu vatnsafls og jarðvarma, auk þess sem vindorkuver eru að mestu afturkræfar framkvæmdir í landslagi og náttúru.

Á Vestfjörðum er EM Orka með áform um byggingu vindorkugarðs í Garpsdal í Reykhólasveit.

DEILA