Vesturverk: Skúfnavötn fari í nýtingarflokk

Afstöðumynd af Skúfnavötnum.

Vesturverk ehf sem vinnur að Hvalárvirkjun er auk þess að rannsaka tvo aðra virkjunarkosti á Vestfjörðum. Eru það Skúfnavatnavirkjun ofan Þverár í Ísafirði og Hvanneyrardalsvirkjun upp af Ísafjarðarbotni. Báðir kostirnir voru á borði verkefnisstjórnar að rammaáætlun 4. áfanga og lagði verkefnisstjórnin til að Skúfnavötn færi í biðflokk en Hvanneyrardalsvirkjun í nýtingarflokk. Verkefnisstjórnin lauk ekki tillögugerð og voru skýrslur hennar ekki afgreiddar.

Við er tekin verkefnisstjórn rammaáætlunar 5. áfanga og vinnur hún að tillögugerð og er áformað ljúka störfum á næsta ári 2025.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku og stjórnarformaður Vesturverks ehf segir að unnið sé að rannsóknum á Skúfnavatnavirkjun. Rannsóknarleyfi var framlengt til loka árs 2025. „Við höfum verið að mæla vatnafar, snjóalög og rennsli í tveimur ferðum á hverju ári á heiðina. Erum komin með góða mynd af rennsli til virkjunar. Jafnframt höfum við verið að meta valkosti sem við reiknum með að lýsa nánar í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar þegar þar að kemur. Virkjunarkosturinn er í rammaáætlun sem er í vinnslu og höfum við upplýst verkefnisstjórn um stöðu verkefnisins og hugsanlegar útfærslur.“ segir Ásbjörn.

Skúfnavatnavirkjun er 16 MW virkjun með orkuvinnslugetu upp á 86 GWh á ári og Hvanneyrardalsvirkjun er með 13,5 MW afl og 80 GWh á ári. Í skýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar 4 segir um þessa virkjunarkosti að megin tækifæri sem felast í þessum virkjunum fyrir samfélagið tengist raforkuöryggi og framboði á raforku á Vestfjörðum og tækifærum fyrir íbúa og atvinnulíf. Á Vestfjörðum sé mikil þörf á að
bæta raforkuöryggi og framboð á raforku.

Að sögn Ásbjörns hefur ákvörðun Landsnets um að hafa tengivirki í Miðdal á Steingrísmfjarðarheiði gert það að verkum að næst er að gera umhverfismat fyrir línulögn frá væntanlegri Hvalávirkjun í tengivirki í Miðdal. Það hefur einnig áhrif á Skúfnavatnavirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun en báðar myndu tengjast inn á sama tengipunkt.

Ásbjörn segir að hægt verði að auka afl og hagkvæmni beggja þessara virkjunarkosta með því að stækka miðlunarsvæðið á hálendinu. Sérstaklega mæli það með Skúfnavatnavirkjuninni að hún er á svæði sem þegar verður raskað vegna vegalagnar sem gera þarf vegna línulagnar frá Hvalárvirkjun í Miðdal. Veskurverk hafi lagt til við núverandi verkefnisstjórn að Skúfnavatnavirkjunin verði í nýtingarflokki og ef fallist verður á það verða fjórar virkjanir á þessu svæði í nýtingarflokki að Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun meðtöldum, sem þegar hafa verið samþykktar í rammaáætlun.

Áhrif Skúfnavatnavirkjunar, Hvanneyrardalsvirkjunar og Austurgilsvirkjunar í Skjaldfannardal, sem hefur verið samþykkt í rammaáætlun, á ferðamennsku, útivist, beit og veiðihlunnindi eru lítil og eru þessar virkjanir með þeim lægstu í lista þeirra virkjunarkosta sem verkefnisstjórn um rammaáætlun 4 skoðaði.

Uppfært kl 12:16. Bætt var við Austurgilsvirkjun í upptalningu á virkjunarhugmyndum á þessu svæði og verða þær fjórar í stað þrjár eins og áður var sagt.

DEILA