Vesturbyggð: fimm styrkir menningar- og ferðamálaráðs

Patreksfjarðarhöfn í byrjun desember sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Menningar- og ferðamálaráð Vetsurbyggðar samþykkti á fimmtudaginn að veita fimm umsækjendum styrk en hafnaði tveimur umsóknum.

þeir fimm umsækjendur sem fengu styrk eru:

Slysavarnadeildin Gyða sótti um 150 þúsund króna styrk vegna kaupa á hljóðnemum og var það samþykkt.

Kvenfélagið Sif sótti um styrk vegna þorrablóts á Patreksfirði sem haldið var þann 27. janúar sl. Sótt er um styrk sem nemur niðurfellingu leigu á félagsheimili Patreksfjarðar. Ráðið samþykkti 150 þúsund króna styrk.

Slysavarnadeildin Unnur sótti um styrk vegna 90 ára afmælis deildarinnar sem haldið verður upp á þann 24. febrúar n.k. Sótt var um styrk sem nemur niðurfellingu leigu á félagsheimili Patreksfjarðar. Erindið var samþykkt en ekki er bókuð nein fjárhæð.

Kristín Mjöll Jakobsdóttir sótti um styrk vegna tónleikaferðar blásaraoktettsins Hnúkaþeys í Vesturbyggð. Sótt var um 200 þúsund króna styrk. Menningar- og ferðamálaráð samþykkti styrk að upphæð 150 þúsund krónur í samræmi við reglur sjóðsins.

Andrew J. Yang sótti um 150 þúsund króna styrk vegna Alþjóðlegu píanóhátíðarinnar á Vestfjörðum sem haldin verður í ágúst næstkomandi. Samþykkt.

Tveimur erindum var synjað. Annars vegar var það umsókn frá Fjólubláu húfunni ehf. sem sótti um 150 þús kr. styrk vegna útgáfu sófaborðsbókar um Vestfirði. Menningar- og ferðamálaráð taldir umsóknina ekki falla að áherslum nefndarinnar. Hins vegar var umsókn um  150 þús kr. styrk vegna árshátíðar fyrirtækjanna sem haldin verður þann 9. mars n.k. Því var hafnað með sömu rökum.

DEILA