Verkmenntahús M.Í. : Tekið vel í erindi Reykhólahrepps

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði fagnar erindi Reykhólahrepps um þjónustuáætlun skólans við samfélagið í sveitarfélaginu.

„Við fögnum mjög bókun Reykhólahrepps og erum einmitt að senda þeim formlegt erindi í dag um samtal um þjónustuáætlun. Við sjáum mikla möguleika í slíkri áætlun og vonumst til að geta fjölgað nemendum frá Reykhólum í framtíðinni.“

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í síðustu viku að taka þátt í kostnaði sveitarfélaga við nýtt verkmenntahús við Menntaskólann á Ísafirði. Telur sveitarstjórnin það vera mikilvægt en óskaði jafnfram eftir samtali við Menntaskólann um þjónustu skólans.

Þá óskaði sveitarstjórn eftir annarri kostnaðarskiptingu þar sem tekið væri tillit til fjarlægðar sveitarfélagsins frá skólanum og segir Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu að hún gerði ráð fyrir því að tekið verði mjög vel í erindið af hálfu þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið jákvætt í erindið. 

DEILA