Torfnes: Vestri kvartar yfir snjómokstri

Torfnesvöllur á fögrum sumardegi.

Knattspyrnudeild Vestra hefur sent erindi til Ísafjarðarbæjar og er kvartað yfir snjómokstri á Torfnessvæðinu. Þar segir að lengi hafi Ísafjarðarbær haft það verklag að ryðja öllum snjó sem hreinsaður er af Seljalandsvegi, Miðtúni og Sætúni, niður á íþróttasvæðið Torfnesi.

„Mörg hundruðum ef ekki þúsundum rúmmetrum af snjó er safnað saman í brekkum ofan við íþróttavæðið Torfnesi. Með þessum snjó fylgja óhreinindi, sandur og jafnvel rusl. Þegar vorar og sól hækkar á lofti lekur allt vatn úr þessari hvimleiðu og óskiljanlegu snjósöfnun niður á íþróttasvæðið Torfnesi. Vegna þessa lekur mikið vatn og safnast fyrir á ákveðnum stöðum við knattspyrnusvæðið.“

Afleiðingin er sú að svæðið næst Vallarhúsi undir gatnamótum Seljalandsvegar og Miðtúns er mjög blautt og hálfgert drullusvað langt fram í júnímánuð segir í erindinu og svo er þessu bætt við: „Svæði sem er þekkt fyrir að drena mjög illa. Hver er tilgangurinn að ryðja inn á það meira vatni en safnast fyrir í úrkomu?“

Erindinu lýkur með þessum orðum: „Knattspyrnudeild Vestra fer þess á leit við Ísafjarðarbæ, að hann láti af þessari óþörfu snjósöfnun fyrir ofan íþróttasvæðið Torfnesi.“

Í minnisblaði nýráðins íþrótta- og æskulýðsfulltrúa til umhverfis- og framkvæmdanefndar segir að þegar vorar og fer að hlýna bráðni snjórinn niður og lekur allt vatn niður að íþróttasvæðinu. Versta svæðið er fyrir ofan Vallarhúsið, drullusvað myndast, mikil bleyta er í brekkunni og á milli Vallarhúss og Kerecisvallar langt fram eftir sumri.

Þá segir í minnisblaðinu að forstöðumaður íþróttamannvirkja telur líklegt að dren við vallarhús taki ekki við þessum snjó og að drulla stífli lagnirnar. Drulla og bleyta er fram eftir sumri í kringum svæðið.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd fól starfsmanni nefndarinnar að ræða við forstöðumann áhaldahúss um mögulegar lausnir og losunarstaði.

DEILA