Strandabyggð: unnið að 60 herbergja hótelbyggingu

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í fyrra. Frá vinstri: Friðjón, Matthías og Þorgeir.

Unnið er að undirbúningi að 60 herbergja hótelbyggingu á Hólmavík. Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir að framundan sé frekari hönnunar og skipulagsvinna og samræming við endurskoðun á aðalskipulagi.  Hann segir að fyrstu tillögur að tímaramma, geri ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í haust.  Á vordögum munu fulltrúar fjárfesta koma til Hólmavíkur á opin fund og kynna verkefnið fyrir íbúum.

Skifað var undir viljayfirlýsingu í maí 2023 á Hólmavík.  Fyrir hönd Fasteignaumsýslunnar ehf var það Friðjón Sigurðarson sem skrifaði undir. Oddvitar beggja lista í sveitarstjórn Strandabyggðar, Þorgeir Pálsson og Matthías Sævar Lýðsson, skrifuðu undir fyrir hönd sveitarfélagsins.  Að auki voru þarna viðstaddir aðrir fulltrúar fjárfesta, arkitektar og sveitarstjórnar.

Hótelið verður staðsett á klettabrúninni fyrir neðan tjaldsvæðið við íþróttamiðstöðina.

DEILA