Í síðustu viku var birt skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, um áhrif laxeldis í opnum sjókvíum á byggð og efnahagslíf sem unnin var fyrir íslenska náttúruverndarsjóðinn; IWF, sem greiddi fyrir gerð hennar ásamt NASF, Laxinn lifi og Landsambandi veiðifélaga..
Fékk Hagfræðistofnunin það verkefni að taka saman hagtölur fyrir greinina frá 2015, eftir því sem gögn leyfðu, og rýna í áhrif hennar á hagkerfið. Virðisauki í opnu sjókvíaeldi á laxi undanfarin ár yrði metinn og hlutur greinarinnar í hagvexti á landinu öllu og í einstökum landshlutum.
Eins og gefur að skilja þegar allir helstu andstæðingar sjókvíaeldis við landið láta gera svona skýrslu þá er tilgangurinn að fá í hendurnar áróðurstæki gegn laxeldinu.
Skýrslan er dagsett í nóvember 2023 en það er fyrst nú, þremur mánuðum seinna sem hún er birt og það er með frekar lágstemmdum hætti miðað við fyrri framgöngu þessara aðila. Það bendir til þess að greiðendurnir telja sig ekki hafa mikið gagn af skýrslunni.
Laxeldið orðið stór atvinnuvegur
Í skýrslunni er það dregið skýrt fram að laxeldi í sjó hafi margfaldast frá 2015 til 2022 og vaxið úr um 5.000 tonna framleiðslu í 43.000 tonn og útflutningstekjurnar það ár voru 41 milljarður króna.
Eins og vænta má hjá fyrirtækjum í uppbyggingu hefur ekki verið hagnaður af rekstri laxeldisfyrirtæjanna á þessum árum en HHÍ bendir á að hlutfall eiginfjár af heildareignum er hátt, en það var 46% árið 2022 eða 39 milljarðar króna í lok þess árs. „Þau hafa aflað mikils fjár til rekstrarins á fáum árum. Það hlýtur að endurspegla von um góða afkomu.“ segir í skýrslunni.
Mikil verðmæti – 100 milljarðar króna
Fram kemur í skýrslunni að samtals hafði verið úthlutað leyfum fyrir tæplega 96 þúsund tonnum af lífmassa af laxi í sjó við Ísland í árslok 2022, samkvæmt ársreikningum eldisfyrirtækja og upplýsingum frá Matvælastofnun.
Það þýðir að vænta megi þess að framleiðslan muni ríflega tvöfaldast á næstu árum bara vegna þeirra leyfa sem þegar hafa verið gefin út. Af því leiðir líka að útflutningsverðmæti laxeldisins muni a.m.k. tvöfaldast og fara að slaga upp í 100 milljarða króna á hverju ári. Að vísu er það ekki nefnt berum orðum í skýrslunni en blasir samt við. Þessar tekjur eru fyrir þjóðarbúið á við tvær góðar loðnuvertíðir – á hverju ári!
Skýrsluhöfundar velta fyrir sér verðmæti leyfanna til eldis á laxi í sjó og segja: „Ef gert er ráð fyrir að þau séu að jafnaði jafnverðmæt og þau tæplega 26 þúsund tonn sem Ice Fish Farm metur til fjár í ársreikningi sínum má reikna með að leyfi til laxeldis í sjó við Ísland hafi verið tæplega 96 milljarða króna virði í árslok 2022.“
Með öðrum orðum, skýrslan segir eftirfarandi óbeint: laxeldi í sjó er gríðarlega arðbær atvinnuvegur og vænta má þess að árlegar útflutningstekjur verði um 100 milljarðar króna og verðmæti þegar útgefinna leyfa er einnig um 100 milljarðar króna.
Mynd úr skýrslunni sem sýnir tekjur eldisfyrirtækja á Vestfjörðum.
Eldið skýringin á fólksfjölgun
Í skýrslunni eru greind áhrif á íbúaþróun á sunnanverðum Vestfjörðum á árunum 2014 til 2023. Þar segir:
„Vinnumálastofnun telur að árið 2022 hafi að jafnaði 817 manns starfað í hreppunum tveim á sunnanverðum Vestfjörðum. Ætla má að 15-20% séu í sjókvíaeldi. Við bætast störf sem tengjast starfseminni, beint og óbeint. Eldið er meginskýring þess að frá upphafi árs 2014 og fram á haust 2023 fjölgaði íbúum í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi um 200, eða 16%.“
Þetta er kjarni málsins. Auk þess má nefna að kvóti var seldur frá Tálknafirði 2015 og í framhaldinu lokaði frystihúsið á Tálknafirði og leiddi það til fólksfækkunar á Tálknafirði. Að teknu tilliti til þess þá var íbúafjölgunin vegna fiskeldisins meiri en þessi 200 sem nefnd. Jákvæðu áhrifin voru enn meiri en þarna er tilgreint.
Fasteignaverð þrefaldast
Annað jákvætt atriði nefna skýrsluhöfundar. Það er breytingin á fasteignaverði. „Fasteignaverð gefur hugmynd um stöðu byggðanna. Frá 2014 til tímabilsins frá ársbyrjun 2022 og fram í október 2023 nær þrefaldaðist verð sérbýlis á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal“ stendur í skýrslunni.
„Húsnæði, sem seldist á árunum 2022 og 2023, var að vísu ekki dýrt. Fermetraverð í sérbýli var að jafnaði 230-240 þúsund krónur (í 20 samningum), um 75% af verði í gamalli byggð á Ísafirði og 36-37% af því sem borgað var fyrir sérbýli í Árbænum, Ártúnsholti, Höfðum, Selási og Norðlingaholti í austanverðri Reykjavík.“
500 m.kr. í skatta og gjöld til sveitarfélaga
Um skattgreiðslur segir og er haft eftir endurskoðanda Arnarlax að hann áætli að árið 2022 hafi skattar og gjöld til sveitarfélaga á starfssvæði þess [á sunnanverðum Vestfjörðum] verið um 500 milljónir króna í formi útsvars starfsmanna, hafnargjalda eða annarra gjalda sem tengjast rekstri fyrirtækisins.
Kostnaður af greiðslu launa á starfssvæði félagsins á sunnanverðum Vestfjörðum eru líklega ríflega 1.600 milljónir og aðrar greiðslur til fólks og fyrirtækja á svæðinu nálægt 800 milljónum segir ennfremur í skýrslunni.
Laun 6% yfir landsmeðaltali
Um laun í fiskeldinu segir í skýrslunni að meðallaun á mánuði fyrir fulla vinnu í sjókvíaeldi á Vestfjörðum hafi verið um 925 þúsund krónur árið 2022, samkvæmt ársreikningum fyrirtækja í greininni. „Launin eru um 6% yfir því sem greitt var að jafnaði fyrir fullt starfi hér á landi árið 2022, samkvæmt tölum Hagstofunnar.“
Öll þessi atriði sem hér hafa verið tíunduð og koma fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands lýsa því að það er rétt og skynsamlegt fyrir þjóðarbúið að nýta þá auðlind í fjörðunum sem þar nýtast við fiskeldi í sjó. Fyrirsjáanlegt er að atvinnugreinin er mjög arðbær að mati fjárfesta og atvinnuleyfin verðmæt. Slíkri starfsemi fylgja óhjákvæmilega háar greiðslur til opinberra aðila í formi skatta og gjalda og þær hafa verið að hækka á hverju ári í takt við aukna framleiðslu en líka vegna hækkandi skatta á atvinnugreinina.
Vaxtarmöguleikarnir eru miklir í fiskeldinu, sérstaklega sjókvíaeldinu á laxi. Greinin verður í náinni framtíð mikilvægari en þorskstofninn ef fram fer sem horfir og mun skila miklu til bættra lífskjara í landinu. Vaxtarverkir eru líka fylgifiskur en fyrirtækin hafa alla hagsmuni af því að finna lausnir á vanda svo sem lús og sleppingum og þau munu keppast við í þeim efnum.
Þeir sem báðu um skýrsluna og borga fyrir hana munu ekki halda þessum atriðum á lofti. Þeir einblína á önnur atriði svo sem fjölgun útlendinga og halda því fram að launakjörin freisti ekki Íslendinga. Sjáum til með þann málflutning, en það er efni í annan pistil að svara því.
En skýrsla HHÍ bendir skýrt á ávinning lands og þjóðar af þessari atvinnuppbyggingu – það er kjarni málsins.
-k