Sjókvíaeldi: Bandaríski ráðherrann fór með fleipur um eigin málefni

Skjáskot af visir.is um viðtalið við Hilary Franz.

Fyrir nokkrum dögum var hér á landi Hilary Franz, sem Stöð 2 og visir.is segja að gegni embætti umhverfisráðherra Washington fylkis í Bandaríkjunum. Henni var boðið hingað til lands til þess að vera viðstödd frumsýningu á heimildarmynd um fiskeldi á Íslandi. Að myndinni stendur  bandaríska útivistarvöruframleiðandinn Patagonia, sem mun einnig selja matvöru framleidda úr Kyrrahafslaxi, og voru þar samankomnir ýmsir andstæðingar laxeldis í sjókvíum á Íslandi.

Hilary Franz gegnir frá 2017 starfi sem heitir Washington commissioner of public lands og er kosið á fjögurra ára fresti í almennum kosningum. Ekki er um ráðherraembætti að ræða heldur væri nær að tala um umboðsmann eða fulltrúa.

Franz hvatti íslensk stjórnvöld til þess að banna sjókvíaeldið áður en það yrði of seint og sagði í viðtali við Stöð 2, sem var svo endurbirt á visir.is, að hún hefði bannað laxeldi í sjókvíum með Atlantshafslax í fylkinu í kjölfar slysasleppingar, en fylkið liggur að Kyrrahafinu.

Haft er orðrétt eftir henni í viðtalinu um laxana sem sluppu:

„Þeir blönduðust innlenda laxastofninum sem á satt best að segja á brattann að sækja.“ og hún bætir svo við: „Við getum stundað fiskeldi án þess að það hafi áhrif á innlenda stofna með því að hafa það uppi á landi.“

engin hætta af Atlantshafslaxinum

Í stjórnardeild þeirri sem Hilary Franz veitir forstöðu og heitir Washington Department of Fish and Wildlife er að finna ágætar upplýsingar um verkefni stofnunarinnar.

Þar segir um Atlantshafslaxinn að stjórnardeildin líti á Atlantshafslaxinn sem framandi tegund, en að engin gögn um hann sýni að hann ógni stofnum sem fyrir eru vegna blöndunar eða sjúkdóma.

Á ensku er þetta : „The Washington Department of Fish and Wildlife (WDFW) considers Atlantic salmon an aquatic invasive species, but there is no evidence to date that Atlantic salmon pose a threat to native fish stocks in Washington through crossbreeding or disease.“

Vísað er í rannsóknir sem fram fóru og skýrslu frá 1999 um áhrif af Atlantshafslaxinum þar sem niðurstaðan er mjög ákveðið að eldi með Atlantshafslaxi sé hættulítið Kyrrahafslaxinum sem þarna er fyrir og reyndar líka öðrum fisktegundum af öðrum uppruna.

„the evidence strongly indicates that Atlantic salmon aquaculture poses little risk to native salmon and non-salmon species.“

Þetta stendur á vefsíðu þessarar merki stjórnarstofnunar um Atlantshafslaxinn. Svo gott sem hættulaus fyrir Kyrrahafslaxinn sem er fyrir.

Og það er meira á vefsíðunni. Á árunum 2003-2008 var leitað að Atlantshafslaxi í 174 ám í fylkinu og fundust 194 eldislaxar. Það voru engin merki um að Atlantshafslaxinn hefði hryngt í ánum og engin blendingsseiði.

En samt segir kjörni yfirmaðurinn Hilary Franz í viðtalinu á Stöð 2 að sleppilaxar hafi blandast innlenda laxastofninum, fullyrðing sem er í andstöðu við uplýsingar eigin stofnunar.

Atlantshafslaxinn blandast ekki Kyrrahafslaxinum

Á þessu vekur athygli dr. Ólafur Sigurgeirsson, lektor við  fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum og bætir við :

„Hún veit ekki að Atlantshafslax æxlast ekki með Kyrrahafslaxi og heldur ekki að þrátt fyrir að seiðasleppingar á Atlantshafslaxaseiðum á vesturströndinni, í fiskræktarskyni, allt frá 1905 (og síðast í hennar sveit 1981 -eins og fram kemur í viðhenginu), hefur Atlantshafslax ekki náð „fótfestu“ í vistkerfum.“

Hér er slóðin á vefsíðu þessarar ágætu stofnunar: https://wdfw.wa.gov/species-habitats/invasive/salmo-salar?fbclid=IwAR16dZBGmk4rE38NvXcTRhijmPy7oofgyuebCNTqXTqg9uDgra223gh_bAw svo lesendur geti með eigin augum séð hvað þar stendur.

Stöð 2 leiðréttir ekki

Það er stórfurðulegt að bandaríski umboðsmaðurinn eða ráðherrann skuli fara með algerar fleipur um málefni sem heyra undir hana. Það er ekki til þess að auka traust á málflutningi andstæðinga sjókvíaeldis við Ísland að byggja mál sitt á staðleysum. En það er líka áhyggjuefni að Stöð 2 og visir.is skuli ekki hafa flutt fréttir af þeim áreiðanlegu upplýsingum sem fyrir liggja á opinberum vettvangi og segja allt annað en haldið hefur verið fram í fjölmiðlinum. Það er ábyrgðarhlutur af þeirra hálfu að þegja yfir mikilvægum upplýsingum í máli sem ber einna hæst í þjóðmálaumræðu síðustu árin. Þegar það er gert er dregin upp röng mynd, hlustendur fá ekki réttar upplýsingar og það hefur áhrif á skoðanamyndun.

Það getur ekki verið ætlun Stöðvar 2 og visir.is.

-k

DEILA