Ríkið: keypti land sem það krefst nú að verði þjóðlenda

Hrútey í Mjóafirði

Fjármálaráðherra hefur krafist þess fyrir Óbyggðanefnd að eyjan Hrútey í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi verði þjóðlenda og mun nefndin kveða upp sinn úrskurð í fyllingu tímans.

Hrútey hefur tilheyrt jörðinni Skálavík innri og Vegagerðin keypti árið 2007 hluta af eyjunni af landeigandanum. Var það til þess að leggja veg yfir Mjóafjörð meðal annars með brúargerð yfir sundið milli Hrúteyjar og lands.

Deilur við landeiganda urðu til þess að tefja framgang vegagerðarinnar og fór málið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta. Í svari frá Vegagerðinni við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að sátt var gerð fyrir milligöngu nefndarinnar sem hljóðaði upp á 17,5 m.kr. Bótafjárhæð var ósundurliðuð en innifalið í henni voru 75.000 m3 af jarðefni, 20 ha. lands undir veg í landi Skálavíkur Innri, þ.m.t. veg- og brúarstæði um Hrútey. Innifalið í fjárhæðinni voru skaðabætur og allar greiðslur til landeiganda og 2,5 m.kr. í málskostnað vegna þriggja dómsmála.

Ekki kemur fram hve stór hluti af Hrútey er keyptur, en samtals var landið ca 20 hektarar og 60 metra breitt vegna vegstæðisins. Í afsali segir hins vegar að afsalað sé 14,4 ha lands úr jörðinni.

Mynd úr skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða frá 2003 sem unnin var fyrir Vegagerðina.

DEILA