Peter Weiss kynnti áform um fiskeldisnám fyrir ráðherra

Það var létt yfir Áslaug Örnu og Peter Weiss á skrifstofu ráðherra í Bolungavík í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- ,iðnaðar- og nýsköpunarráðherra var í gær með opna skrifstofu í Ráðhúsinu í Bolungavík og tók á móti fólki sem vildi ræða við hana um margvísleg málefni. Mikill straumur fólks var og hafði ráðherrann meira en nóg að gera þegar Bæjarins besta koma við í Ráðhúsinu.

Meðal þeirra sem ræddi við ráðherrann var Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. Hann kynnti fyrir ráðherra háskóla-,iðnaðar og nýsköpunar áætlun Háskólasetursins um nám tengt fiskeldi, sem reyndar snertir öll svið ráðuneytis, enda virðiskeðja fiskeldis nátengd menntun, rannsóknum, iðnaði og ekki síðst nýsköpun.

Peter sagði í samtali við Bæjarins besta að það hafi í nokkurn tíma verið í pípunum hjá Háskólasetrinu að breyta núverandi námsleið í sjávartengdri nýsköpun og beina henni sterkar inn á atvinnugreinina sem er í mestum vexti á Vestfjörðum, fiskeldinu. „Námið á að vera þverfaglegt og með miklu praktísku ívafi enda nánd við atvinnulífið, þarfir þess og þau rannsóknar- og kennslutækifæri sem liggja hér í fyrirtækjunum sjálfsagt helsta ástæða og hvatning fyrir Háskólasetur Vestfjarða að bjóða upp á gott og nýstárlegt nám í góðu og nýstárlegu fiskeldi.“

Háskólasetur Vestfjarða hefur að sögn Peters unnið mjög náið við HA í mörg ár og þó þar væri ekki að finna nám sem heiti beinlínis fiskeldi, er þar innan um annað nám fullt af námsefni og námskeiðum sem nýtast vel í slíkt nám. Svo er Háskólasetur Vestfjarða í samstarfsverkefni sem Háskólinn á Hólum leiðir og kannar fýsileika nýs náms í lagareldi og þá sérstaklega í samstarfi við annað námsframboð á landinu. „Einhver námskeið í núverandi námsframboði Háskólaseturs Vestfjarða tengjast nú þegar lagareldinu, t.d. námskeið í sjálfbæru eldi eða viðskiptahraðall, enda mikilvægur þáttur strandsvæðastjórnunnar annars vegar og byggðafræði hins vegar, stoðunum tveim sem Háskólasetur hefur sérhæft sig í.“

Peter sagði að ráðherra hefði sýnt humyndinni áhuga. „Ekki undarlegt að ráðherra háskóla, vísinda, iðnaðar og nýsköpunar hlustaði spenntur á þessi áform, ekki síðst þar sem Áslaug Arna ráðherra er hlynnt mjög öllu samstarfi milli skóla. Hjá Háskólasetri Vestfjarða treysta menn hins vegar áfram á að þar sem er vilji þar er vegur og þar sem eru góð áform þar verður líka stuðningur til lengdar. Háskólasetrið hefur áður komið með nýstárlegar tillögur, lotunám, sumarönn o.fl., og það er tíl í að leita nýrra lausna í kennslu á háskólastigi, sem gagnast bæði Vestfirðingum og vestfirðsku atvinnulífi sem og landinu öllu.“

DEILA