Ný eldisleyfi: beðið eftir Matvælastofnun

Matvælastofnun gefur ekki svör við því hvers vegna leyfi í Ísafjarðardjúpi eru ekki gefin út.

Umhverfisstofnun auglýsti 5. júní 2023 drög að starfsleyfi fyrir Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða breytingu á leyfi sem áður var gefið út fyrir allt að 5.300 tonna lífmassa af regnbogasilungi en eftir breytingu verður umfangið allt að 8.000 tonna lífmassi og þar af að hámarki 5.200 tonn af frjóum laxi. Frestur til að skila athugasemdum var til 3. júlí 2023.

Í leyfinu kemur fram að það eigi við eldissvæðin Kirkjusund, Sandeyri og Arnarnes. Endanlegt umhverfismat fyrir eldið er dagsett 9. júní 2020 og álit Skipulagsstofnunar á umhverfismatinu er frá 28. jan. 2021. Telur stofnunin að að áhrif eldisins á laxastofna í þeim ám sem áhættumatið nær til verði óveruleg.

Skúli Þórðarson, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun segir í svari fyrir fyrirspurn Bæjarins besta að starfsleyfið hafi ekki enn verið gefið út, núna hálfu ári síðar, þar sem Umhverfisstofnun beri að gefa út leyfi samhliða Matvælastofnun, sem gefur út rekstrarleyfi og beðið er eftir afgreiðslu þess þeim megin. Skúli segir að framkomnar athugasemdir verði birtar þegar leyfið verður gefið út.

Fleiri umsóknir um eldi í Djúpinu liggja fyrir, m.a. frá Arnarlaxi og Hábrún.

Síðla árs 2022 var stefnt að því að afgreiða fyrir áramótin leyfi til laxeldis í Ísafjarðardjúpi, en þá kom upp athugasemdir um að skoða þyrfti hvort kvíastæði hefðu áhrif á siglingar skipa. Var þá útgáfu leyfanna frestað og ákveðið að vinna svonefnt áhættumat siglinga.

Vegagerðin hafði forystu um það mál og Bergþóra Kristinsdóttir hjá Vegagerðinni staðfestir að gerð áhættumatsins fyrir Ísafjarðardjúp væri lokið og vísar til auglýsingar Umhverfisstofnunar um starfsleyfi fyrir Arctic Fish. Strax í maí í fyrra var búið er að vinna áhættumat fyrir þrjú svæði sem hafa verið til skoðunar og eru það:  Kirkjusund, Sandeyri og Arnarnes.

Matvælastofnun var innt eftir því hvenær mætti vænta þess að leyfi verða gefin út til eldis í Djúpinu og hvað væri að tefja útgáfu þeirra. Erna Karen Óskarsdóttir svaraði því til að Matvælastofnun ynni að útgáfu rekstrarleyfa í Djúpinu en útgáfa leyfanna væri umfangsmikil og ekki er ljóst með tímasetningu á útgáfu þeirra.

Þegar hún var innt nánar eftir því hvað tefði afgreiðslu erindanna svaraði hún því til unnið væri að að útgáfu rekstrarleyfa í Djúpinu, ásamt öðrum leyfum, en nákvæm tímasetning liggi ekki fyrir.

Ekki fengust því svör við því hvers vegna leyfin hafa ekki verið gefin út þrátt fyrir að búið sé að leysa úr því atriði fyrir liðlega hálfu ári sem olli frestun á afgreiðslunni fyrir rúmu ári.

En fyrir liggur að Umhverfisstofnun er tilbúin fyrir sitt leyti.

DEILA