Menntaskólinn á Ísafirði: 20 nemendur frá Vesturbyggð og Tálknafirði

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

Alls voru 20 nemendur frá Vesturbyggð og Tálknafirði við nám í Menntaskólanum á Ísafirði í janúar 2024. Hefur þeim fjölgað frá janúar 2023 þegar þeir voru 16 og fjöldinn liðlega þrefaldast frá janúar 2022 þegar þeir voru 6.

Þetta kemur fram í upplýsingum um nemendur við M.Í sem Bæjarins besta hefur fengið hjá Heiðrúnu Tryggvadóttur, skólameistara Menntaskólans.

Við skólann voru í janúar skráðir 444 nemendur og þar af eru 252 búsettir á Vestfjörðum. Mismunurinn eru 192 nemendur sem eru í fjarnámi í bóknámi og segir Heiðrún fjarnámið hafa vaxið mikið „en með styttingu náms til stúdentsprófs varð fjarnámið mjög mikilvægt viðbragð við fækkun nemenda í dagskóla m.a. til að ekki þyrfti að fara í fækkun starfsfólks. Með fjarnáminu höfum við getað bætt hópanýtingu í bóknámi sem er nú mjög góð sem og haldið úti áföngum sem eru mögulega með fáa dagskólanemendur. Allir bóknámsáfangar eru í boði í fjarnámi. Fjarnámið er okkur því mjög mikilvægt.

Af fjarnemum er nokkur fjöldi sjúkraliðanema en við bjóðum upp á slíkt nám með FNV á Sauðárkróki og VA á Neskaupstað. Einnig vorum við að fara af stað með iðnmeistaranám með VA.“

12,6% þeirra sem eru í verknámi

Í janúar 2024 voru 16 nemendur frá Vesturbyggð og 4 nemendur frá Tálknafirði. Langflestir nemendanna eru í verklegu námi eða sextán og fjórir eru í bóknámi.

Alls eru 8% nemenda skólans frá þessum tveimur sveitarfélögum en þar búa 19% þeirra sem eiga lögheimili á Vestfjörðum. Hlutfall þeirra er enn hærra þegar skoðað er sérstaklega verknámið. Nemendurnir 16 frá Vesturbyggð og Tálknafirði eru 12,6% af þeim 127 nemendum sem eru skráðir í verknámið.

Fyrir ári voru 14 nemendur frá V-Barðastrandarsýslu, þar af voru 9 í verknámi og fyrir tveimur árum, í janúar 2022, voru 6 nemendur frá þessu svæði og allir í verknámi. Á tveimur árum fjölgaði nemendunum úr 6 í 20 eða um 233%.

ekki hagsmunir íbúa Vesturbyggðar

Í síðustu viku ræddi bæjarráð Vesturbyggðar um þátttöku sveitarfélagsins í nýbyggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði og sá sér ekki fært að taka þátt í verkefninu eins og það væri sett upp. Bókað var að bæjarráðið telur að „hagsmunir íbúa Vesturbyggðar af þátttöku í byggingu verknámshús þurfi að vera skýrir svo að bæjarráð geti rökstutt þátttöku í verkefninu. Huga þarf að aðgengi nemenda á öllum Vestfjörðum og hvernig skuli að því staðið.“

Oddviti Tálknafjarðarhrepps hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta um afstöðu sveitarstjórnar til þátttöku í verknámshúsinu.

4 nemendur frá Strandasýslu

Frá Strandasýslu eru nú 4 nemendur við skólann, þrír frá Drangsnesi og einn frá Hólmavík. Þrír eru í bóknámi og einn í verknámi. Í fyrra voru þrír nemendur frá þessum sveitarfélögum og einn í janúar 2022.

DEILA