Íslenskum ríkisborgurum fækkar í Reykjavík

Morgunblaðið í dag.

í Morgunblaðinu í dag birtist athyglisverð frétt um fólksfjölgun í Reykjavík. Fram kemur að frá 1. október 2014 til sama tíma 2023 hefur íslenskum ríkisborgurum fækkað í Reykjavík um 10, en erlendum ríkisborgurum fjölgað um 21.030. Alls voru þá 142.740 íbúar í borginni. Íbúafjölgunin er 17% á tímabilinu en öll fjölgunin er vegna erlendra ríkisborgara. Þá er líka athyglisvert að kynjaskiptingin er í lok tímabilsins ójöfn um 4220 manns sem karlar eru fleiri.

Á Seltjarnarnesi er ástandið svipað. Þar fjölgar um 7% á þessu tímabili og nær öll fjölgunin er vegna erlendra ríkisborgara eða 91% af fjölguninni. Í Hafnarfirði er 13% fólksfjölgun á tímabilinu og þar af eru 78% útlendingar. Í Kópavogi, Mosfellsbæ og Garðabæ er innan við helmingur af fólksfjölguninni erlendir ríkisborgarar.

Það sem einkennir þróunina á þessu árum er almennt mikil fólksfjölgun og að hún er borin uppi að miklu leyti af erlendum ríkisborgurum, sem hingað hafa komið og fengið vinnu. Með öðrum orðum mikill hagvöxtur í efnahagslífinu byggir að verulegu leyti á aðfluttu vinnuafli enda er það orðið nærri fjórðungur af vinnumarkaðnum. Lífskjarabatinn sem almenningur hefur notið á þessum árum hvílir á hagvextinum.

er fækkunin í Reykjavík fiskeldinu að kenna?

Í dag birtist aðsend grein á visir.is eftir Jón Kaldal, áróðursmeistara íslenska náttúruverndarsjóðsins, Icelandic Wildlife Fund sem berst hatrammlega með öllum tiltækum ráðum gegn sjókvíaeldi við Vestfirði. Svo vill til að hann tekur fyrir sama efni og fyrirsögn greinarinnar er: íslenskum ríkisborgurum hefur fækkað jafnt og þétt þar sem sjókvíaeldi er mest við Ísland, á sunnanverðum Vestfjörðum.

Þar segir Jón að tölur Hagstofu Íslands, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur tekið saman, fyrir íbúaþróunina frá byrjun árs 2014 fram á haust 2023 á sunnanverðum Vestfjörðum sýni að íslenskum ríkisborgurum hafi fækkað um 90 en erlendum ríkisborgurum hafi fjölgað um 290. Fjölgunin sé þar að auki mest í hópi karla.

Til skýringar skal þess getið að íbúum í Vesturbyggð hefur fjölgað um 23% frá 2011 og er það sambærilegt við íbúafjölgunina í Reykjavík.

Niðurstaða Jóns Kaldal er þau kjör sem bjóðast við störf við sjókvíaeldi á laxi freisti Íslendinga ekki nóg til þess að þeir flytji þangað sem það er stundað.

Þá vaknar spurningin, fyrst íbúaþróunin í Reykjavík er nánast sú sama og á sunnanverðum Vestfjörðum hvað varðar fjölgun erlendra ríkisborgara hvernig getur fiskeldið verið skýringin á Vestfjörðum? Ekkert fiskeldi er í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu.

krafist þess að hrun verði á Vestfjörðum

Svarið er auðvitað að fiskeldinu er ekki um að kenna. Það sem hefur gerst á báðum landssvæðunum er að uppgangur í atvinnulífi er borinn mikið til uppi af erlendum starfsmönnum. Á höfuðborgarsvæðinu eru það væntanlega ferðaþjónusta og byggningariðnaður sem eru fyrirferðamikil í sköpun starfa en á sunnanverðum Vestfjörðum er það fiskeldið. Ef fiskeldið verður stöðvað og jafnvel það bannað eins og islenski náttúruverndarsjóðurinn krefst, þá mun verða hrun í íbúatölu á Vestfjörðum þar sem störfin hverfa á einu augabragði og ekkert kemur í staðinn.

Þá verður þjóðhagslegt tap upp á um 40 – 50 milljarða króna á ári sem er útflutningsverðmæti laxeldisins og fyrirsjáanleg tvöföldun þeirrar fjárhæðar á næstu árum, þar sem þegar hafa verið gefin út leyfi fyrir fiskeldi upp á nærri 100 þúsund tonn á ári.

Þetta er krafan sem þessi samtök og fleiri félög stangveiðimanna hafa sett fram og bergmálar á nokkrum þægum landsfjölmiðlum við hvert tækifæri.

En hvert yrði hljóðið ef krafan yrði að fækka störfum á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi, sem væntanlega á að gera þar sem þau hafa leitt til mikillar fjölgunar útlendinga?

Ætli yrði ekki á það bent að störf útlendinganna skapi tekjur fyrir land og þjóð og leggi umtalsvert af mörkum til þess að bæta almennt lífskjör í landinu. Það á auðvitað jafnvel við á Vestfjörðum eins og í Reykjavík.

Það eru íslenski náttúruverndarsjóðurinn ásamt NASF, Laxinn lifi og Landssambandi veiðifélaga sem greiddu fyrir þessa skýrslu og sameiginlega leggja fram þessa túlkun á niðurstöðunum.

Útlendingaandúðin og lítilsvirðingin á störfum þeirra fyrir íslenskt þjóðfélag lekur niður með báðum síðum. Þessi samtök hafa leiðst til þess í heiftugri andstöðu sinni við laxeldi í sjó að taka upp málflutning sem er bara einu skrefi frá því að tala um aría og alla hina. Það er mál að linni.

-k

DEILA