Ísafjörður: vantar meira vatn á Suðurtanga

Sviðstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar óskaði eftir tillögum frá Verkís að lausn til að koma til móts við mikla aukningu á vatnsnotkun á Suðurtanga og væntanlegrar aukningar á næstu árum.

Skoðaðar voru þrjár leiðir, tillaga, A, B og C, sjá teikningu að ofan.

Í lýsingu Verkís segir eftirfarandi: Fyrir liggur að Hraðfrystihúsið Gunnvör hefur fengið úthlutað lóð á Suðurtanga fyrir fiskvinnslu og líklega sláturhús fyrir eldisfisk. Vélsmiðjan Þrymur hefur fengið lóð fyrir þjónustustarfsemi þá hefur Kerecis áform um byggingu verksmiðju á svæðinu. Auk þess er Hampiðjan og önnur iðnaðarstarfemi þegar á svæðinu. Innan fárra ára má gera ráð fyrir að slökkvistöð verði reist á svæðinu. Ekki er þó líklegt að þessi fyrirtæki þurfi mikið vatn.
Til viðbótar þessari starfsemi hefur verið aukning á sölu vatns í skemmtiferðaskip. Það er því ljóst að notkun á svæðinu mun aukast verulega á næstu árum og munar þar mestu um nýtt frystihús og sölu vatns í skemmtiferðaskip.

Það er niðurstaða Verkís eftir skoðun á þessum valkostum að líklega er heppilegast að fara leið A.
Huga þurfi því að notkun svæðisins áður en endanleg ákvörðun er tekin á sverleika lagnar.

Tillaga A gerir ráð fyrir að leggja Ø225 mm lögn frá Suðurtanga og tengja við Ø280 mm lögn ofan Grænagarðs sem er nýtt fyrir efri byggðina á Ísafirði og Hnífsdal. Auk þess er gert ráð fyrir að tengja lögnina við Ø225 mm lögn sem er á gatnamótum Sindragötu og Ásgeirsgötu. Vatnsmagn á Eyrinni eykst verulega og þrýstingur einnig. Vatnsþrýstingur í nýju lögninni er of mikill fyrir veitukerfið og því þarf að koma fyrir brunni / húsi fyrir þrýstijafnara, álíka húsi og við Skógarbraut. Staðsetning lokahúss mætti hugsa sér nálægt áhaldahúsi bæjarins.
Tillaga B gerir ráð fyrir að þvera Pollinn á sama stað og tillaga A en lögnin yrði lögð meðfram Skutulsfjarðarbraut og upp í vatnsveituhús í Tungudal. Þarna er um nýja aðveitulögn að ræða.
Tillaga C gerir ráð fyrir að þvera Pollinn og koma upp við Sigurðarbúð, þaðan í vegrás við Þjóðveg 60
upp að vatnsveituhúsi.

DEILA