Ísafjörður: breytingum á Seljalandsvegi 73 andmælt

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar ákvað í desember að kynna breytingar á Seljalandsvegi 73 fyrir nágrönnum. Náði grenndarkynningin til  eigenda að Seljalandsvegi 71 og 75 og til eigenda að Miðtúni 23, 25 og 27.

Sótt er um að rífa núverandi svalir og gera nýjar með tröppum niður í garð. Um er að ræða stálgrind með harðviðardekki og glerhandriði. Núverandi svalir eru 38 m2 og fyrirhugaðar svalir verða 66 m2.

Athugasemdir komu frá eigendum Miðtúns 23 og 25 ásamt eigendum Seljalandsvegar 75 sem segjast ekki samþykkja umbeðnar breytingar. Gera þau athugasemdir við nýtingu byggingarreitsins, sem verði mun meiri en nærleiggjandi húsa. Þá hafi eignin verið stækkuð fyrir nokkrum árum og sé eftir það um tveimur metrum úr umræddri byggingarlínu. Það hafi riðlað götulínu og hún þrengd. Er varað við því að heimilað verði einum að bæta útsýni sitt með því að þrengja að öðrum og að það kunni að leiða til þess að aðrir fylgi í kjölfarið. Gera þurfi deiliskipulag fyrir svæðið sem setji þá reglurnar fyrir íbúana.

Skipulags- og mannvirkjanefndin fjallaði ummálið í síðustu viku og bókaði að nefndin tekur undir þau sjónarmið að framkvæmdin raski götumynd enn frekar en orðið hefur og fól byggingarfulltrúa að ræða við umsækjanda sem og nágranna. Málið verður lagt fyrir að nýju.

Þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag í efri byggð Ísafjarðar beinir nefndin því til bæjarstjórnar að hefja þá vinnu sem fyrst til að móta skilmála hverfisins.

DEILA