Hafnað að fella úr gildi framkvæmdaleyfi fyrir grjótnámu í Reykhólahreppi

Gömul mynd frá Reykhólahöfn. Mynd: Sigling.is/visir

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað kröfu eiganda Miðjaness í Reykhólahreppi um að fella úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið veitt fyrir efnisnámu austan Karlseyjarvegar. Þar verður heimilað að taka allt að 22.000 rúmmetra af grjóti sem fara í hafnargerð á Reykhólum. Miklar hafnarframkvæmdir standa yfir og er kostnaður við þær liðlega 300 m.kr. Einkum er það endurnýjun stálþils á bryggjunni sem hleypir kostnaðinum upp.

Framkvæmdaleyfið var veitt í okóber 2023 og úrskurðarnefndin felldi sinn úrskurð í síðustu viku.

Kærandi  vísaði til þess að með vinnubrögðum sveitarstjórnar væri bæði brotið gegn meðalhófi og jafnræði. Stjórnsýsla við breytingu á aðalskipulagi hafi verið óvönduð. Hagsmunir kæranda felist fyrst og fremst í því að hinn almenni íbúi sitji við sama borð og stjórnvald, en hann hafi sjálfur þurft að ganga í gegnum tæplega tveggja ára ferli til að fá landnotkun á jörð sinni breytt.

Þá segir að hagsmunir kæranda séu einnig fjárhagslegir en í landi hans sé opin grjótnáma og sé kærandi eigandi einu löglegu grjótnámunnar á Reykjanesi í Reykhólahreppi.  ert hafi verið ráð fyrir námu hans í aðalskipulaginu og sveitarfélagið hefði getað keypt efni úr henni. Verðmæti þeirra 20.000 m3 sem sveitarfélaginu vanti í framkvæmdir sé sennilega á milli 300-400 kr. pr. m3 og því ljóst að hagsmunir hans séu ríkir.

Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að jörð kæranda sé í nokkurri fjarlægð frá hinni umdeildu námu austan við Karlseyjarveg. Verði því ekki séð að leyfi til námunnar geti varðað grenndarhagsmuni hans. Aftur á móti hafi kærandi fært fram sjónarmið um fjárhagslega eða samkeppnislega hagsmuni. Almennt leiði þeir óbeinu hagsmunir ekki til kæruaðildar samkvæmt stjórnsýslurétti og verður ekki séð að í skipulagslögum sé gert ráð fyrir því við töku ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. gr. laganna.

Þar sem ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi aðra þá lögvörðu hagsmuni sem veitt geta honum kæruaðild var kröfu hans vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Þá krafðist kærandi þess að úrskurðarnefndin láti sig breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022–2034  varða. Um það segir úrskurðarnefndin að  aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag.Þær ákvarðanir verða ekki bornar undir úrskurðarnefndina og var þeirri kröfu einnig vísað frá.

DEILA