Förgun Orra ÍS: gjaldskrá Ísafjarðarbæjar 5,1 – 6,4 m.kr.

Orri ÍS í Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Kostnaður við förgun Orra ÍS, sem sökk í Flateyrarhöfn í janúar 2020 varð 16.3 m.kr. eða liðlega þrefalt hærri en þær 5 m.kr. sem áætlað hafði verið. Þetta kemur fram í minnisblaði hafnarstjóra Ísafjarðarhafna.

Skýrist munurinn einkum af því að gert var ráð fyrir að báturinn væri 35 tonn að þyngd en reyndist vera nærri 170 tonn þegar upp var staðið.

Um þriðjungur kostnaðarins fór til greiðslu á móttöku og urðunargjaldi samkvæmt verðskrá sem Ísafjarðarbær setur. Greitt er 40 kr/kg fyrir blandaðan og grófan úrgang og 50 kr/kg fyrir timbur. Ekki er greitt fyrir förgun járns samkvæmt svörum upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar.

Samkvæmt tölum frá Hilmari Lyngmó, hafnarstjóra var grófur úrgangur og timbur samtals 128.360 kg. og járn var 41.230 kg.

Verktakinn Keyrt og mokað ehf þurfti því að greiða verktaka Ísafjarðarbæjar, Kubbi ehf fyrir förgun á 128 tonnum af timbri og grófum úrgangi. Ekki fékkst staðfest hve mikið greitt var fyrir förgunina.

Ekki kemur fram skipting í timbur annars vegar og grófan úrgang hins vegar en ef allt hefur verið grófur úrgangur þá hefur kostnaðurinn verið 5,1 m.kr. og ef allt hefur verið timbur er gjaldið 6,4 m.kr.

Í svörum frá Ísafjarðarbæ segir að gjaldið er innheimt af verktaka og er sem nemur kostnaði við móttöku og flutning í Fíflholt, auk urðunargjalds og umsýslukostnaðar.

DEILA