Fleiri íbúar á Vestfjörðum en á Norðurlandi vestra

Brunnbáturinn Novatrans í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þjóðskrá hefur birt íbúafjölda í einstökum sveitarfélögum um síðustu mánaðamót.Í fyrsa sinn í langan tíma eru íbúar á Vestfjörðum orðnir fleiri en íbúar á Norðurlandi vestra, sem hefur þá tekið við sem fámennasta landssvæðið.

Á Vestfjörðum fjölgaði um 32 íbúa frá 1. desember 2023 og voru þeir 1. febrúar orðnir 7.509, en á Norðurlandi vestra voru á sama tíma 7.488 íbúar og fækkaði um 13 íbúa. Fyrir rúmum þremur árum, 1. desember 2020 voru íbúar á Norðurlandi vestra 7.412 en á Vestfjörðum voru þá 7.099 íbúar. Fjölgunin á Vestfjörðum hefur verið 410 manns á tímabilinu en aðeins fjölgun um 74 íbúa á Norður landi vestra.

Fjölgunin á Vestfjörðum síðustu tvo mánuði er öll í þremur sveitarfélögum, í tveimur er óbreytt íbúatala og í fjörum sveitarfélögum hefur fækkað.

Í Bolungavík fjölgaði síðustu tvö mánuði um 10 manns og voru íbúar orðnir 1.028 um síðustu mánaðamót. Nemur fjölguninni frá 1. des. 2020 rétt um 8% eða 76 manns. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 28 manns og voru íbúarnir 3.963 og nálgast óðfluga 4.000 manna markið. Þriðja sveitarfélagði sem hefur fjölgað í er Súðavík en þar voru íbúar um síðustu mánaðamót 240 og hefur fjölgað um 8 manns.

Óbreyttur fjöldi er í Árneshreppi og Tálknafirði en fækkun í Vesturbyggð, Reykhólahreppi, Kaldrananeshreppi og Strandabyggð.

Þó ber að geta þess að þrátt fyrir fækkunin síðustu tvo mánuði í Vesturbyggð hefur fjölgað í sveitarfélaginu frá 1. desember 2019 um 16,4% frá 1.020 manns í 1.187.

DEILA