Fjármálaráðherra gerir kröfu um að Borgarey og Grímsey verði þjóðlenda

Grímsey á Steingrímsfirði er skammt undan Drangsnesi.

Fjármálaráðherra hefur sett fram fyrir Óbyggðanefnd kröfur ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar.

Í kröfugerð fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins er svæði 12 skipt í átta hluta. Í meginatriðum er beitt útilokunaraðferð, þ.e. lýst kröfum sem taka til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga utan meginlandsins en innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru, að undanskildum tilteknum eyjum eða hlutum þeirra, sbr. eftirfarandi yfirlit. Þá eru gerðar þjóðlendukröfur til afmarkaðra hluta tveggja eyja.

Á Vestfjörðum eru þessar eyjar undanskildar þjóðlendukröfu ríkisins:

Vestfirðir utan Barðastrandarsýslna: Æðey og Vigur.

Breiðafjörður: Meginland/heimaeyjur eftirfarandi eyja : 1) Flatey. 2) Svefney. 3) Hvallátur. 4) Skáley. 5) Sviðnur. 6) Bjarneyjar. 7) Sauðeyjar. 8) Hergilsey. 9) Skáley. 10) Purkey. 11) Hrappsey. 12) Arney. 13) Rauðseyjar. 14) Rúfseyjar. 15) Akureyjar. 16) Höskuldsey. 17) Saurlátur. 18) Þormóðsey. 19) Elliðaey. 20) Fagurey. 21) Bíldsey. 22) Gvendarey. 23) Ólafsey. 24) Rifgirðingar. 25) Brokey. 26) Öxney.

Samkvæmt þessu gerir ríkið kröfu til þess að eyjarnar Borgarey í Ísafjarðardjúpi og Grímsey á Steingrímsfirði verði þjóðlenda og séu ekki eignarland.

Hjá Óbyggðanefnd fékkst þetta staðfest en þar minnt á að þetta væri krafa ríkisins og Óbyggðanefnd ætti eftir að rannsaka málið.

DEILA