Fiskeldissjóður hefur 437 m.kr. til úthlutunar

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Fiskeldissjóður hefur auglýst eftir umsóknum í sjóðinn, en í ár hefur hann 437 m.kr. til úthlutunar. Fyrst var úthlutað 2021 og þá var upphæðin 105 m.kr. Síðan hefur fiskeldisgjaldið hækkað verulega. Fiskeldisgjaldið á þessu ári verður 37,80 kr/kg af slægðum eldislaxi og helmingur þess fyrir regnbogasilung. Gjaldið var í fyrra 18,33 kr/kg og er hækkunin hvorki meira né minna en 106%.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær að sækja um styrk úr sjóðnum.

Fiskeldissjóður starfar á grundvelli laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð og greiða fiskeldisfyrirtæki ákveðna upphæð af hverju framleiddu kg af eldisfiski. Sjóðurinn veitir sveitarfélögum styrki til uppbyggingar innviða, þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað, og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.

Á Vestfjörðum eru það Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungavíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur og Strandabyggð sem geta sótt um styrk.

Við úthlutun styrkja úr sjóðnum er sérstaklega horft til verkefna sem snúa að:

a) Styrkari samfélagsgerð (menntun, menning, íbúaþróun)

b) Uppbyggingu innviða (atvinnulíf, þjónusta)

c) Loftslagsmarkmiðum og umhverfisvernd (fráveita, orkuskipti, vatnsveita)

d) Tengingu við sjókvíaeldi (hafnir, aðstaða í landi)

e) Nýsköpun hverskyns, tengd ofangreindum þáttum

200,7 m.kr. í fyrra

Á síðasta ári var úthlutað 248 m.kr. og runnu þar af 200,7 m.kr. til sex vestfirskra sveitarfélaga. Hæsta fjárhæðin var til Vesturbyggðar 69,2 m.kr. og 46,3 m.kr. til Ísafjarðarbæjar. Bolungavík fékk 33,3 m.kr, Tálknafjarðarhreppur 24,8 m.kr., Strandabyggð 24,4, m.kr. og Súðavík 2,8 m.kr.

DEILA