Litli leikklúbburinn frumsýndi á fimmtudaginn söngleikinn Fiðlarinn á þakinu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði fyrir fullu húsi og glimrandi undirtektir. Sýningin er tvímælalaust einn stærsti menningarviðburðurinn á Vestfjörðum þetta árið. Önnur sýning var í gærkvöldi og var einnig uppselt á hana. Þriðja sýning verður í dag kl 14. Alls verða 10 sýningar , sú síðasta 16. febrúar.
Sýningin er sett upp í tilefni 75 ára afmælis Tónlistarskólans á Ísafirði og standa skólinn og Litli Leikklúbburinn að henni.
Ísfirðingurinn Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir og Bergþór Pálsson skólastjóri Tónlistarskólans fer með aðalhlutverkið. Bea Joó er hljómsveitarstjóri og hljómsveitin er skipuð kennurum, nemendum og fyrrum nemendum skólans. Alls koma um þrjátíu manns að sýningunni.
Fiðlarinn á þakinu er fjörugur, fyndinn og hjartnæmur söngleikur eftir Jerry Bock, Sheldon Harnick og Joseph Stein, sem var fyrst frumsýndur á Broadway 1964. 1971 kom út vinsæl söngvamynd byggð á söngleiknum.
Fiðlarinn á þakinu segir frá mjólkurpóstinum Tevje, sem leikinn er af Bergþóri Pálssyni. Verkið gerist árið 1905 í þorpinu Anatevka í Rússlandi þar sem siðvenjur og hefðir eru fyrir öllu. Tevje og Golda konan hans eiga fimm dætur sem allar þurfa eiginmenn. Hjúskaparmiðlari þorpsins gerir sitt besta til að sinna hlutverki sínu en dæturnar hafa aðrar hugmyndir en foreldrarnir, miðlarinn og samfélagið.
Miðasala er hér og einnig á vef Litla leikklúbbsins.