Eyjarnar Grímsey og Borgarey eignarlönd

Grímsey á Steingrímsfirði er skammt undan Drangsnesi.

Eyjan Borgarey tilheyrir jörðinni Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi samkvæmt heimildum Bæjarins besta. Fjármálaráðherra hefur lagt fram kröfu fyrir Óbyggðanefnd um að eyjan verði viðurkennd sem þjóðlenda. Vatnsfjörður er í eigu prestsetrasjóðs Þjóðkirkjunnar. Pétur Markan, biskupsritari, segist vera fullviss um að Vatnsfjörðurinn og lendur séu í eigu þjóðkirkjunnar, en ætlar að athuga málið nánar.

Þá hefur fjármálaráðherra einnig gert kröfu um Grímsey á Steingrímsfirði sem þjóðlendu. Eftir því sem Bæjarins besta kemst næst hefur eyjan tilheyrt jörðunum Bæ I og Bæ II sem eru utan við Drangsnes. Hefur eignarhald gengið kaupum og sölum. Þannig seldi Ingólfur Andrésson, bóndi á Bæ 50% eignarhlut sinn í Grímsey til Jóns Magnússonar á Drangsnesi og hann síðar til bróður síns Ásbjörns Magnússonar, einnig á Drangsnesi.

Magnús Ásbjörnsson, sonur Ásbjörns, sagði í samtali við Bæjarins besta að hin 50% í eyjunni væru í eigu fjölmargra afkomenda Bæjarættarinnar. Á eyjunni væri æðarrækt og kæmu um 10 kg af æðardún árlega úr varpinu og tekjur væru af lundaveiði og siglingum með ferðamenn í eyjuna. Magnús sagði að til væri þinglýst bréf um eignarhaldið.

Fyrir nokkrum árum, 6 – 8 árum hélt Magnús, hefði farið fram uppboð á 0,5% eignarhlut í eyjunni og hefði fengist 1,2 – 1,3 m.kr. fyrir hlutinn. Sé það verð til marks um verðmæti eyjunnar er það um 250 m.kr.

Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna við kröfur ríkisins að gæta. Kröfum skal lýst skriflega í síðasta lagi 15. maí 2024. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu svæðanna úrskurðar óbyggðanefnd um framkomnar kröfur. Úrskurði nefndarinnar er hægt að bera undir dómstóla.

DEILA