Á þriðjudaginn tilkynnti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um breytta stjórnsýsluframkvæmd vegna veitingar byggingarleyfa fyrir sjókvíar sem teljast mannvirki í skilningu laga um mannvirki nr. 160/2010, og eru utan netlaga. Frá og með gærdeginum, 15. febrúar 2024 var gerð krafa um byggingarleyfi vegna nýrra byggingarleyfisskyldra sjókvía sem rekstraraðilar hyggjast setja niður utan netlaga.
Litið er svo á að sjókvíar sem festar eru við botn séu mannvirki. Á þetta einnig við um fóðurpramma og/eða aðstöðuhús á flotkví sem hafa fasta staðsetningu.
Byggir þessi breyting á úrskurðum umhverfis- og auðlindanefndar sem kveðnir voru upp í lok árs 2022 þar sem fjallað var um hvort sjókvíar gæti talist til mannvirkja.
Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish sagði í samtali við Bæjarins besta að þetta mál ætti sér aðdraganda. Arctic Fish hefði ákveðið fyrir allnokkru að sækja um byggingarleyfi fyrir sjókvíar á eldissvæði við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi og komin væri tilkynning frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um að leyfið væri tilbúið. Umsóknarferlið hafi tekið langan tíma þar sem stjórnvöld voru í raun ekki tilbúin til þess að fá umsóknir.
Daníel taldi að þessi nýja krafa myndi ekki hafa áhrif á afgreiðslu umsóknar félagsins um laxeldi í Ísafjarðardjúpi þar sem leyfið væri í höfn. Þá hefði þetta ekki áhrif á afgreiðslu Matvælastofnunar eða Umhverfisstofnunar á rekstrarleyfi og starfsleyfi fyrir fiskeldið. Í þeim tilvikum þar sem byggingarleyfi fyrir eldiskvíarnar lægi ekki fyrir yrði þá væntanlega sett í leyfin skilyrði um að afla byggingarleyfis frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.