Aparólumálið: tíma og fjármunum sóað að nauðsynjalausu

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók aftur fyrir í vikunni aparólumálið á Eyrartúni á Ísafirði. Gerð var athugasemd við staðsetningu rólunnar og vildu íbúar að Túngötu 12 færa róluna fjær húsinu. Fyrir nefndina var lagt erindi frá eiganda að Túngötu 5 sem vildi að aparólan verði færð á viðeigandi stað í
fjarlægð frá íbúabyggð. Vísaði bréfritari til þess að staðsetningar á svona aparólum eins og um ræðir annars staðar eru „yfirleitt settar á skipulögð leiksvæði fjarri íbúabyggð, t.d í Kjarnaskógi á Akureyri og í Garðalundi á Akranesi og víðar. Það eru mörg svæði sem koma til greina á Ísafirði sem eru ekki svona nálægt byggð og þar sem svona tæki hefði ekki áhrif á ásýnd, götumynd bæjarins og innsýn inn í hús íbúa og ófrið í byggð.“

Fyrir nefndina var lögð hugmynd um að færa róluna sunnar eftir Túngötunni, nær sjúkrahúsinu. Skipulags- og mannvirkjanefndin fagnaði að tekist hafi að sætta sjónarmið við íbúa og samþykkti framlagða tillögu. Var því erindi eiganda Túngötu 5 ekki samþykkt.

Fulltrúi Framsóknarflokksins í skipulags- og mannvirkjanefndinni Anton Helgi Guðjónsson bókaði vegna þessa máls:

„Nefndarmaður Framsóknar telur það jákvætt að fundin sé lausn með nærliggjandi lóðum og nágrönnum. Aftur á móti er það umhugsunarvert fyrir stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar hvernig málið hefur þróast og ljóst að skoða þarf vel ferlið til þess að sóa ekki tíma og fjármunum að nauðsynjalausu eins og raunin er í þessu máli.“

DEILA