Vestri: vill 6 mán samning um umsjón knattspyrnusvæðis á Torfnesi

Íþróttavöllurinn á Torfnesi og stúkan til vinstri.

Knattspyrnudeild Vestra hefur óskað eftir því við Ísafjarðarbæ að gerður verði samningur við deildina til 6 mánaða frá 1. apríl til 1. október um umsjón með knattspyrnusvæðinu á Torfnesi. Kostnaður er áætlaður vera 3,7 m.kr.

Verkefnin sem þarf að sinna á knattspyrnusvæðinu á Torfnesi eru eftirfarandi:

  • Umsjón með 1. hæð í Vallarhúsi, annast regluleg þrif.
  • Vökva og bursta gervigrasvelli
  • Sjá til að svæðið í kringum knattspyrnuvelli og Vallarhús sé snyrtilegt
  • Sinna minniháttar viðhaldi á svæðinu.

Í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir að þessi umsjón verði sinnt af Ísafjarðarbæ og er miðað við þriggja mánaða ráðningu á sumarstarfsmanni. Kostnaður er 1,7 m.kr.

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs að ef beiðni knattspyrnudeildar Vestra verður samþykkt þýði það kostnaðarauka upp á 1,9 m.kr.

Málið var lagt fyrir bæjarráð á mánudaginn og varð ekki útrætt og var bæjarstjóra falið að leggja málið fyrir að nýju.

Verkefnasamningur við HSV

Knattspyrnudeild Vestra er með verkefnasamning við Héraðssamband Vestfirðinga, HSV, þar sem kveðið er á um að Vestri annist gæslu á leikjum bæði á velli og inn í Vallarhúsi, sjái um að opna og loka vallarhúsi fyrir og eftir leiki/æfingar sem fara fram utan venjulegs vinnutíma. Þá sjá þau um að ganga frá og þrífa svæðið eftir leiki og halda auglýsingarskiltum sínum í þannig ástandi að þau séu svæðinu til sóma. Þessi verkefni falla því ekki undir þau verkefni sem Ísafjarðarbær er að sinna.

DEILA