Vestfirðir: erlendir ríkisborgarar 22,6% íbúanna

Súðavík. Þar eru hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarará Vestfjörðum. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Erlendir ríkisborgarar með lögheimili á Vestfjörðum voru 1.691 þann 1. desember 2023 samkvæmt tölum Þjóðskrár, sem birtar voru í morgun. Íbúar voru alls 7.484 og erlendu ríkisborgararnir því 22,6% af íbúunum. Það er næsthæsta hlutfall á landinu. Aðeins eru fleiri erlendir íbúar hlutfallslega á Suðurnesjum, en þar er hlutfallið 29,9%.

Næst koma Austurland og Suðurland með 19,2% og 19,6%. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi, liðlega 11%. Á landinu öllu er hlutfallið 18,7%.

Hlutfallið er á Vestfjörðum hæst í Súðavík 32,8% og Vesturbyggð 31,9%, en lægst er það í Árneshreppi 3,8% og 6% í Reykhólasveit.

Árneshreppur er það sveitarfélag landsins sem hefur fæsta erlenda ríkisborgara og Reykhólahreppur er í fimmta lægsta sæti. Á hinum endanum er Súðavík með 6. hæsta hlutfallið á landinu og Vesturbyggð er í 7. sæti.

Langflestir erlendir íbúar eru í Mýrdalshreppi 61,7%.

DEILA