Vatnsdalsvirkjun: Ísafjarðarbær vill breyta friðunarskilmálum

Vatnsdalur. Mynd: Úlfar Thoroddsen.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar afgreiddi í gær umsögn um Vatnsdalsvirkjun. Er það niðurstaða bæjarráðs að beina því til „ráðherra að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar að því marki sem þörf er á til þess að áfram verði hægt að vinna að rannsóknum og heildstæðri pólitískri umræðu um bætt raforkukerfi á Vestfjörðum og landinu öllu, uppbyggingu þjóðgarðs á svæðinu og stuðla þannig að umhverfisvernd og bættum þjóðarhag.“

Er þessi afstaða verulega frábrugðin afstöðu bæjarstjórnar Vesturbyggðar sem samþykkti í desember sl. með atkvæðum meirihlutans N-lista að leggjast gegn ósk Orkubús Vestfjarða um breytingu á friðunarskilmálum svæðisins svo vinna megi umhverfismat fyrir áformaða Vatnsdalsvirkjun. Vísað Vesturbyggð til þess að tvöfalda fyrst vesturlínu og að ráðast í virkjunarkostina Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun áður en ákvörðun verði tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. Minnihluti D lista vildi fallast á erindi Orkubúsins.

Í rökstuðningi fyrir niðurstöðu sinni segir í bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar að Vestfjarðakjálkinn sé ekki sjálfbær um raforku í dag, jarðhitaleit gefi ekki fyrirheit um jarðvarma í nægjanlegu magni, virkjun á svæðinu auki raforkuöryggi um 90%, umhverfisáhrif Vatnsdalsvirkjunar séu lítil, jarðhræringar á Reykjanesi kalli á virkjun utan eldvirks svæðis, þeir kostir sem Vesturbyggð vísi til séu ekki í hendi og að breyting á friðunarskilmálum sé ekki endanlegt leyfi til virkjunar heldur gefi kost á að skoða málið.

Bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í heild:

„Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu hefur borist erindi frá Orkubúi Vestfjarða þar sem óskað er eftir því að friðun Vatnsfjarðar verði breytt og mögulegri virkjun þar verði hleypt í umhverfismat og umfjöllun rammaáætlunar. Ráðuneytið sendi erindið áfram til umsagnar nokkurra aðila, en ekki Ísafjarðarbæjar. Eftir að álit Vesturbyggðar var birt telur bæjarráð Ísafjarðarbæjar þó tilefni til að árétta afstöðu sína til málsins, því þó Ísafjarðarbær hafi ekki formlega lögsögu um svæðið snertir málið ríka hagsmuni sveitarfélagsins og Vestfjarða allra.
 Umræða þessar vikurnar um orkuskort á landinu öllu á að einhverju leyti við á Vestfjörðum, einkum með tilliti til skerðingar á ótryggri orku sem hefur talsverð áhrif á Vestfjörðum. Við bætist þó sá flöskuháls sem er til staðar í flutningskerfinu inn á Vestfirði, þar sem Vestfjarðakjálkinn er ekki sjálfbær um raforku í dag. Nýjustu fréttir af olíubruna Orkubús Vestfjarða undirstrika þetta. Fréttir af yfirstandandi jarðhitaleit á norðanverðum Vestfjörðum gefa ekki fyrirheit um varma í því magni að hann breyti þessari mynd að mun. Afhendingaröryggi orku er ósættanlegt og mun að óbreyttu versna.
 Fyrir liggja nokkrar skýrslur um raforkumál á Vestfjörðum, sú síðasta sem kynnt var í júní í fyrra. Skýrsluhöfundar, sem bæði höfðu fulltrúa Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar og könnuðu málið einnig vel með viðtölum við fjölmarga aðila, töldu mikilvægt að skoða virkjunarkostinn í Vatnsfirði áfram með mögulegum breytingum á friðlýsingarskilmálum eftir þörfum.

 Virkjun á svæðinu eykur raforkuöryggi um 90%. Með auknum kerfisstyrk eykst einnig flutningsgeta núverandi Vesturlínu verulega. Með aukinni vatnsmiðlun eykst geta orkukerfisins til að taka við öðrum orkugjöfum, svo sem vindafli og ómiðluðum rennslisvirkjunum.
 Auk þess má benda á umsagnir og umfjöllun í tengslum við þingsályktunartillögur um hringtengingu Vestfjarða, til dæmis 197. mál á löggjafarþingi númer 153.
 Þeir kostir sem Vesturbyggð vísar til (Austurgilsvirkjun, Hvalárvirkjun, tvöföldun flutningslínu inn á svæðið) eru ekki í hendi. Austurgilsvirkjun er ekki nógu stór til að bera tengivirki og flutningslínur sem til þarf. Undirbúningur Hvalárvirkjunar hefur ekki gengið ýkja hratt og hefur mætt talsverðri mótstöðu. Áætlanir um tvöföldun Vesturlínu eru langt inn í framtíðinni, sá kostur framleiðir ekki nýja orku, skipulagslegar forsendur liggja ekki fyrir og fjöldi þeirra aðila sem geta stoppað eða tafið málið er slíkur að hægt er slá því föstu að núverandi tímalínur muni ekki ganga upp. Nærtækt er að líta bæði til lagningar vega um Gufudalssveit auk Suðurnesjalínu 2 sem dæmi um spor sem hræða. Engar þessara lausna eru heldur án neikvæðra umhverfisáhrifa.
 Umhverfisáhrif virkjunarinnar eru fremur lítil miðað við raforkuframleiðslu hennar. Umhverfisáhrif þess að virkja ekki í Vatnsfirði geta orðið töluverð, bæði staðbundið í annarri uppbyggingu sem koma þarf í staðinn, en einnig í hægari orkuskiptum. Þá eru ótalin samfélagsleg og hagræn áhrif þess að tryggja raforkuöryggi.
 Hamfarirnar á Reykjanesi undirstrika mikilvægi þess að Ísland búi yfir dreifðri framleiðslu á orku, sérstaklega utan svæða með eldvirkni eða hættu á jarðhræringum.
 Fjórðungssamband Vestfjarða hefur ákveðið að hefja gerð svæðisskipulags með sérstaka áherslu á orkumál.
 Kjósi ráðherra að breyta friðun á Vatnsfirði er það ekki endanlegt leyfi til að virkja í Vatnsdal, heldur gefur kost á að valmöguleikinn verði skoðaður áfram af fagfólki og í stærra samhengi. Með því opnast einnig leið til að skilgreina skilmála þjóðgarðs sem koma þarf á fót á svæðinu og almennur stuðningur er fyrir. Allir þeir sem þegar hafa veitt umsögn munu hafa umsagnarheimild (og skipulagsvald í tilviki Vesturbyggðar) þegar málinu vindur fram.
 Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir þau sjónarmið Vesturbyggðar að áhersla verði lögð á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, einkum virkjanir í Austurgili, Hvalá og tvöföldun Vesturlínu.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar beinir því til ráðherra að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar að því marki sem þörf er á til þess að áfram verði hægt að vinna að rannsóknum og heildstæðri pólitískri umræðu um bætt raforkukerfi á Vestfjörðum og landinu öllu, uppbyggingu þjóðgarðs á svæðinu og stuðla þannig að umhverfisvernd og bættum þjóðarhag.“

DEILA