Hvalveiðibannið átt sér ekki nægi­lega skýra stoð í lög­um

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun upphafs hvalveiða síðastliðið sumar og látið í ljós álit sitt vegna málsins.

Í álitinu kemur m.a. fram að reglugerð um frestun upphafs hvalveiða hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar og að eins og atvikum var háttað hafi útgáfa og undirbúningur reglugerðarinnar ekki samrýmst kröfum um meðalhóf.

Umboðsmaður beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðuneytisins um úrbætur. Hann beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.

Teitur Björn Einarsson alþingismaður segir í viðtali við Ríkisútvarpið að þetta sé mjög alvarlegt brot hjá ráðherra. „Það er alvarlegt þegar brotið er með jafn skýrum hætti gegn grundvallarmannréttindum og ráðherra veldur tjóni hjá fjölda fólks sem stundaði þessa atvinnu.“ Hann segir ekki loku fyrir það skotið að þetta baki ríkinu skaðabótaábyrgð. „Það eitt og sér setur málið í alvarlegan búning.“

Teitur segist vænta þess að fljótlega komi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins saman til að ræða þetta mál. Hann segir ráðherra verða að gera upp við sig hvort hann segi af sér eða ekki. „Það er ekki endilega það sem er undir hér heldur traust og trúverðugleiki ráðherra til að fara með þau málefni sem ríkisstjórnin hefur komið sér saman um.“ Hann hafi þó sagt það frá upphafi að framganga ráðherra í þessu máli væri mikill álitshnekkur fyrir hana.

Svandís Svarsdóttir matvælaráðherra segir á facebooksíðu sinni : „Ég tek þessa niðurstöðu umboðsmanns alvarlega og þrátt fyrir að umboðsmaður beini ekki sérstökum tilmælum til mín þá hyggst ég beita mér fyrir breytingum þannig að þessi úreltu lög séu færð til nútímans.“

DEILA