Súðavík: nokkrir strandaglópar í nótt

Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi og varð það til þess að nokkrir bílar , þar á meðal 2 flutningabílar komust ekki til Ísafjarðar og voru strandaglópar í þorpinu í nótt. Heimamenn skutu skjólshúsi yfir þá en af hálfu ríkisins er enginn viðbúnaður í Súðavík.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að vegurinn hefði verið opnaður í morgun og væri ástandið orðið nokkuð stöðugt. Hann átti von á því að vegurinn héldist opinn í dag og nótt.

Bragi sagði að flóðið sem lokaði veginum í fyrradag hefði verið um tveggja metra þykkt í svonefndu Fjárgili, nokkuð breitt og hefði náð niður fyrir veg. Vegagerðin jók við vetrarþjónustu í haust og lengdi þjónustutímann um hálfa klukkustund að morgni og eins að kvöldi og segir Bragi það vera til bóta og að þjónustan væri heilt yfir viðunandi.

DEILA