Ríkið dæmt til að greiða Reykjavíkurborg 3,4 milljarða króna vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Frá Reykjavík.

Fyrir áramót féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem Reykjavíkurborg höfðaði á hendur ríkinu vegna greiðslna úr Jöfnunarjóði sveitarfélaga. Krafðist Reykjavíkurborg þess að fá greiddar 5.418 milljónir króna vegna áranna 2015-19 vegna reksturs grunnskóla og vegna nýbúafræðslu.

Gert var samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga 1996 um færslu grunnskólans til sveitarfélaganna og í framhaldinu voru gerðar breytingar á tekjustofnum sveitafélaganna þannig að tekjuskattsprósenta varð að útsvarsprósentu. Miðað var við þá tölu sem Reykjavíkurborg taldi sig þurfa. Önnur sveitarfélög voru talin þurfa meira fé til rekstursins og hafa fengið viðbót úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þess að mæta því.

Reykjavíkurborg gerði kröfuna í ljósi dóms í öðru máli þar sem lagastoð skorti fyrir útdeilingu fjár úr Jöfnunarsjóðnum og var ríkið dæmt til að greiða viðkomandi sveitarfélagi sem hafði fengið skertar greiðslur. Benti Reykjavíkurborg á að lagastoð skorti fyrir því að Reykjavíkurborg fengi ekki framlög úr Jöfnunarsjóðnum vegna reksturs grunnskóla og vegna nýbúafræðslu í grunnskólum.

Héraðsdómur tók undir þetta og segir að stefnandi haft átt rétt á framlögum úr Jöfnunarsjóði. Samkomulag milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um tilteknar forsendur, sérstöðu borgarinnar og möguleikar á fjármögnun og hagræðingu voru ekki talin breyta því að lagheimild skorti til að undanskilja stefnanda lögbundnum framlögum. 

Var ríkið dæmt til þess að greiða 2.114 m.kr. vegna reksturs grunnskóla á umræddu árabili og 1.256 m.kr. vegna nýbúafræðslu auk vaxta eða samtals 3.370 m.kr.

Ríkið hafði lýst því yfir áður að ef Reykjavíkurborg ynni málið yrði ekki aukið við fé til Jöfnunarsjóðsins heldur yrði endurútreiknað og lækkað framlag til sveitarfélaganna sem höfðu fengið úthlutun. Með vöxtum og dráttarvöxtum er gert ráð fyrir að fjárhæðin verði 5,5 milljarðar króna.

Málinu verður áfrýjað.

Breytingum á Jöfnunarsjóðnum frestað

Innviðaráðherra hefur tilkynnt sveitarfélögunum að frestað verði lagabreytingum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þar til óvissu hefur verið eytt. Fyrirhugað er að gera viðamiklar breytingar á sjóðnum og útdeilingu fjárins milli sveitarfélaganna.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar lýsti yfir vonbrigðum með dóminn og segir í bókun að ótækt sé að sveitarfélög séu látin borga brúsann vegna málsins. Mikilvægt sé að halda áfram vinnu við breytt fyrirkomulag Jöfnunarsjóðs þar sem markmiðin með þeirri vinnu eru að auka gegnsæi og fyrirsjáanleika í framlögum sjóðsins.

DEILA