Orkubú Vestfjarða: brennir 3,4 milljónir lítra af olíu á árinu

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Vegna orkuskorts stefnir í að Orkubú Vestfjarða muni brenna 3,4 milljónum lítra af olíu á þessu ári. Orkubúið er með samninga við Landsvirkjun um orkukaup. Landsvirkjun er heimilt að skerða afhendingu á rafmagni vegna lágrar stöðu vatns í uppistöðulónum, á móti fær Orkubúið rafmagnið á lægra verði. Nú hefur Landsvirkjun tilkynnt um að gripið verði til þessa ákvæðis. Orkubúið verður þá að framleiða rafmagn með því að brenna olíu og ber kostnað af því.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri greinir frá því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær að fyrirsjáanlegt sé að olíunotkunin fari í 3,4 milljónir lítra á nýbyrjuðu ári en í fyrra var hún 220 þúsund lítrar. Aukning í
losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9.200 tonn segir Elías. Það jafngildi ársnorkun 4.000 fólksbifreiða sem aka 15 þús. km/ári og eyða 5,5 l/100 km.

Útlit er fyrir að 20-30% orkunnar í hitaveitum á Vestfjörðum muni eigi uppruna sinn í olíu, en í venjulegu árferði sé hlutfallið um 3%.

520 m.kr. aukakostnaður

Elías segir að það stefni í skerðingar á afhendingu orku frá Landsvirkjun frá og með 19. janúar 2024, sem geti staðið til 30. apríl eða í 103 sólarhringa.

Kostnaður Orkubúsins vegna skerðingarinnar stefni í um 520 milljónir króna, sem jafngildir 74 þús. krónum á hvern Vestfirðing.

Elías Jónatansson segir þetta ástand algerlega óviðunandi og segir að að taka þurfi ákvarðanir um virkjanir fljótlega.

DEILA