Óánægja með frumvarpsdrög matvælaráðherra

Landssambands smábátaeigenda segir að ekkert í frumvarpsdrögum matvælaráðherra til laga um sjávarútveg styrki útgerð smábáta.

Í umsögn sambandsins við frumvarpsdrög ráðherra segir meðal annars:

„Við lestur frumvarpsdraganna er það mat LS að þar sé ekkert að finna sem styrki útgerð smábáta.  Að eftir allt það starf sem unnið hefur verið sé það niðurstaðan að sniðganga mikilvægi smábáta og minni skipa við vistvæna nýtingu auðlindarinnar.  Jafnframt að loka öllum leiðum til að bæta við veiðiheimildir sínar með umgjörð þar sem samkeppni verður ekki háð á jafnréttisgrundvelli.  Aðgengi að fé til kvótakaupa er gjörólíkt, einstaklingsútgerðir háðar lánum frá bönkum, en útgerðir á markaði fá fé frá almenningi án þess að þurfa að greiða af því vexti.   

Auk þessa er lagt til í frumvarpsdrögunum að skerða og afnema í áföngum línuívilnun sem hefur verið bjargræði margra útgerða, samhliða sem byggðafestu hinna dreifðu byggða er ógnað.“

Þá er því einnig mótmælt harðlega að fallið verði frá að skylt verði að halda eftir 5,3% af leyfilegum heildarafla til að tryggja strandveiðar, línuívilnun og aðrar byggðatengdar aðgerðir.  Með þeirri samþykkt verði þeir hundruð aðila sem byggja atvinnu sína á þessum veiðiheimildum að reiða sig á geðþótta ráðherra hverju sinni.

Þá segir einnig í umsögninni að þrátt fyrir að 750 bátum hafi verið róið til strandveiða á sl. sumri og veiðiheimildir hafi aðeins dugað í 57% þess tíma sem strandveiðileyfið náði til, sé það afar gagnrýnisvert að ekki sé lagt til í frumvarpsdrögunum að verða við vilja þjóðarinnar og leggja til auknar heimildir til strandveiða.

DEILA