Mikilvægi sögustaða í ferðaþjónustu á Íslandi

Ráðherra segir að markmiðið sé að Ísland verði áfangastaður á heimsmælikvarða.

Vægi sögustaða og menningararfs í ferðaþjónustu á Íslandi var rætt á sérstöku málþingi í Ferðaþjónustuvikunni 2024. Málþingið fór fram í Eddu. Lilja Dögg Alfreðsdóttir sagði þar mikilvægi menningar fyrir ferðaþjónustu vera óumdeilt, en ráðuneyti menningar- og viðskipta er einnig ráðuneyti ferðamála.

Ráðherra sagði að mörg tækifæri væru enn vannýtt á sviði menningar- og söguferðaþjónustu. Hyggst hún á vorþingi leggja fram þingsályktun þingsályktun um uppbyggingu sögustaða hér á landi.

Markmið þingsályktunartillögunnar er að styðja enn frekar við uppbyggingu menningarferðaþjónustu á slíkum stöðum og móta slíkum áherslustöðum viðeigandi umgjörð.

Með uppbyggingu sögustaða er markmiðið að standa vörð um staðinn sjálfan og þá sögu sem hann hefur að segja og miðla henni til komandi kynslóða.

Úrræði stjórnvalda, á borð við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða hafa varið um einum og hálfum milljarði króna á ári undanfarin ár í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum m.a. á fjölmörgum sögu- og minjastöðum um landið.

DEILA