MÍ: ráðuneyti vill ganga frá samningi sem fyrst

Menntaskólinn á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fyrir liggja drög að samningi milli ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um byggingu 850 fermetra verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði 60% kostnaðar en sveitarfélögin 40%.

Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er á bilinu 476,8 – 715,3 milljónir króna
samkvæmt forathugun Framkvæmdasýslu ríkisins miðað við verðlag í október 2023.

Hlutur sveitarfélaganna verður samkvæmt þessu á bilinu 191 – 286 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélagið þar sem skólinn er leggi til gjaldfrjálsa lóð.

Fram kemur í skýrslu Vestfjarðastofu til sveitarfélaganna að Ásmundur Einar Daðason ráðherra vill koma eins fljótt og auðið er vestur til að undirrita samkomulag við sveitarfélögin. Fjórðungssamband Vetsfjarða fól Vestfjarðastofu að samræma sjónarmið sveitarfélaganna til aðkomu þeirra að byggingu hússins með þeim fyrirvara að í því fælist engin skuldbinding um aðkomu sveitarfélaganna að verkefninu.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bókaði á mánudaginn að það fagni því að umræða um nýtt verkmenntahús sé komin á skrið og fól bæjarstjóra að vera í sambandi við Vestfjarðastofu og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna málsins.

Sérstakur kynningarfundur verður haldinn í fjarfundi í dag kl 13 fyrir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum.

Sett hefur verið upp skipting kostnaðar milli sveitarfélaga m.v. íbúafjölda um áramótin og að öll sveitarfélögin taki þátt í verkefninu.

DEILA