Markaðssetja hafnir Ísafjarðarbæjar fyrir skemmtiferðaskip

Skemmtiferðaskipið Elizabeth. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í drögum að stefnu Ísafjarðarbæjar sem unnin hafa verið í hafnarstjórn um móttöku skemmtiferðaskipa fyrir árin 2024 – 26 segir að áfram verði allar hafnir í Ísafjarðarbæ markaðssettar sem áfangastaðir fyrir skemmtiferðaskip.

Skemmtiferðaskipunum hafi fylgt miklar tekjur fyrir hafnarsjóð, ferðaþjóna, verslanir og þjónustu. Mörg fyrirtæki sem starfa á ársgrundvelli og þjóna heimamönnum hefðu ekki rekstrargrundvöll án skemmtiferðaskipanna. Stefnt er að því að móttaka skemmtiferðaskipa verði mikilvægur atvinnuvegur svo sem sést á því að undanfarin misseri hafa farið fram umfangsmiklar framkvæmdir við lengingu hafnarbakka, dýpkun og stækkun lands sem ekki er fyllilega lokið en stefnt að því að því ljúki á þessu ári.

Í stefnudrögunum er sett markmið um fjölda ferðamanna og miðað er við að hámarksfjöldi farþega verði 8.000 á dag, en sé útlit fyrir að gestir verði umfram 6.000 að því skipi sem er að bóka sig meðtöldu, verði skipafélög hvött til að endurbóka. (Miðað er við skráðan hámarksfjölda hvers skips, en farþegar eru jafnan um 20–40% færri um borð í raun).

Um þolmörk við móttöku ferðamanna segir að þau taki meðal annars mið af því hvaða tekjur sveitarfélagið og samfélagið hefur af móttöku skipanna, hvaða þjónusta og innviðir eru tiltæk og hvernig til tekst. Þolmörkin hækki því eftir því sem innviðir styrkjast, þjónustuframboð eykst, og jákvæð áhrif skipakomanna verði skýrari.

Meðal þess sem sérstaklega er tekið fram í stefnudrögunum eru þessi atriði:

Höfnin setji á stofn Skemmtiferðaskipasjóð. Sjóðurinn hafi tvíþætt hlutverk;
að styrkja sjálfstæð verkefni sem efla höfnina sem áfangastað, svo sem með uppbyggingu innviða, uppsetningu skilta, eða bætt aðgengi, og styrkja menningu- og félagslíf í bænum á svipaðan hátt og samfélagssjóður Orkubúsins.

Klárað verði deiliskipulag fyrir Suðurtanga árið 2024 og uppbygging samkvæmt því hefjist strax í
kjölfarið.

Almennt skulu skemmtiferðaskip ekki taka land utan hafna. Þar sem Ísafjarðarbær er landeigandi
er það því bannað nema með leyfi bæjarstjóra eða hafnarstjóra.

Skipstjórum verði bannað að þeyta skipsflautur nema þegar þess er krafist af öryggisástæðum.

Hannað verði hús fyrir farþegamóttöku árið 2024 svo framkvæmdir geti hafist 2025.

Hafnarstjóri vinni að varanlegri lausn á salernismálum í bænum öllum og samhæfi vinnu þeirra
sem koma þurfa að málum.

DEILA